Verða ekki skráðar foreldrar barnsins

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms í máli tveggja kvenna sem fóru fram á að drengur sem staðgöngumóðir í Bandaríkjunum ól fyrir þær yrði skráður sem sonur þeirra hjá Þjóðskrá.

Í dóminum segir Hæstiréttur m.a. að samkvæmt íslenskum lögum sé sú kona sem alið hefur barn sem getið var með tæknifrjóvgun móðir barnsins og aðrar konur ekki.

Þá er bent til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur gengið út frá því að í því tilviki þegar engin líffræðileg tengsl séu milli barns sem alið hefur verið af staðgöngumóður og hjóna sem hafa verið samvistum við það, myndist ekki með þeim fjölskyldutengsl.

Dómararnir taka hins vegar einnig fram að tengsl kvennanna við barnið öðluðust fyrst stjórnarskrárvernd eftir að barnaverndarnefnd samþykkti að barnið skyldi vistað hjá þeim. Ákvörðun Þjóðskrár, hinn kærði úrskurður, hefði hins vegar verið tekin áður, 18. júní 2013, og ekki varðað þau fjölskyldutengsl.

Drengurinn kom í heiminn í Bandaríkjunum árið 2013, þegar konurnar voru í hjúskap, en þær höfðu leitað til fyrirtækisins Advocates For Surrogacy um að finna staðgöngumóður. Notast var við egg og sæði frá nafnlausum gjöfum en eftir fæðingu drengsins voru konurnar íslensku úrskurðaðar mæður hans af dómstól í Kaliforníu.

Þjóðskrá hafnaði skráningu drengsins í Þjóðskrá þar sem hann fæddist af staðgöngumóður í Bandaríkjunum og því ættu ákvæði íslenskra barnalaga ekki við. Líta yrði svo á að drengurinn væri bandarískur þegn og skráning hans félli því undir ákæði útlendingalaga.

Konurnar kærðu ákvörðun Þjóðskrár til innanríkisráðuneytisins sem hafnaði beiðni þeirra. Samkvæmt íslenskum lögum væri konan sem fæddi drenginn móðir hans. Konurnar sóttu í kjölfarið um að ættleiða barnið en skildu áður en því ferli lauk og við það féll umsóknin niður.

Héraðsdómur vísaði m.a. til þess í ákvörðun sinni að staðgöngumæðrum væri bönnuð með lögum á Íslandi. Þá sagði að með því að viðurkenna foreldratengsl sem komið væri á erlendis með háttsemi sem væri brotleg og refsiverð hérlendis, væri opnað á möguleikan að sniðganga áðurnefnd lög.

Bent var á að bann við staðgöngumæðrun útilokaði að kona sem elur barn geti afsalað sér náttúrulegri stöðu sinni sem móður og kæmi í veg fyrir að kona væri beitt þrýstingi til að veita afnot af líkama sínum með því að ganga með barn sem hún þyrfti svo að slíta öll tengsl við.

Drengurinn hefur nú fengið dvalarleyfi, verið skráður í þjóðskrá og fengið kennitölu og íslenskan ríkisborgararétt. Konurnar eru fósturforeldrar hans og hafa, líkt og segir í niðurstöðu héraðsdóms, gegnt öllum umönnunar- og uppeldissyldum gagnvart honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka