Fuglavernd hefur sent frá sér ályktun þar sem hún leggst eindregið gegn þeirri veglínu sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit.
„Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með,“ segir í ályktuninni.
Vegagerðin telur leið Þ-H sem þverar Gufufjörð og Djúpafjörð og fer um Teigsskóg bestu leiðina af þeim fimm sem til skoðunar hafa verið varðandi lagningu Vestfjarðavegar (60) milli Bjarkalundar og Skálaness.
Í ályktun Fuglaverndar er Vegagerðin hvött til að „stíga inn í nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans“.
„Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.“