Nýr Landspítali byggður 2018-2022

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Nýr Landspítali verður byggður á tímabilinu 2018-2022, samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð verður fram í dag. Biðlistar verða styttir. Nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga tekur gildi og kostnaður sjúklinga lækkar.

Fjármálaáætlunin sýnir forgangsröð ríkisstjórnarinnar. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál og er gert ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála á tímabilinu verði 22% og 13% til velferðarmála.

Greiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verða hækkaðar í skrefum. Bótakerfi öryrkja verður endurskoðað, útgjöld aukin og aðstoð við atvinnuleit sömuleiðis. Stigin verða markviss skref til að leysa húsnæðisvandann og notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest. Unnið verður gegn fátækt barna.

Þá eru í áætluninni sett fram markmið og stefnur í 34 málefnasviðum og 101 málaflokki, segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins en síðar í dag mun væntanlega liggja fyrir nánari útlistun á áætlunum ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert