Uppboðum sýslumanna á óskilahrossum hefur fækkað síðustu ár en þau voru mun algengari fyrir rúmum áratug, að sögn Björns Hrafnkelssonar, sýslumannsfulltrúa á Norðurlandi vestra. Í janúar síðastliðnum voru boðin upp þrjú hross í óskilum, einn graðhestur og tvær hryssur, á bænum Saurbæ í Skagafirði.
Þau voru seld á samtals 150 þúsund krónur. Það er aðeins meira en fæst fyrir gripinn ef hann er seldur til slátrunar. Sláturfélag Suðurlands greiðir 60 krónur á kílóið og fengi þá eigandinn líklega á bilinu 8 til 12 þúsund krónur í sinn vasa.
Öll hross eiga að vera skráð og örmerkt samkvæmt reglum sem tóku gildi árið 2012. Þessi þrjú hross eru ekki undanskilin því og eru öll örmerkt og skráð í Worldfeng, upprunaættbók íslenska hestsins. Skráður eigandi allra hrossanna er Monica Linghede frá Svíþjóð.
Tvö hrossanna eru undan sömu hryssunni, Ljósbrá frá Hveragerði, sem var fyrstuverðlaunahryssa. Stóðhesturinn sem var boðinn upp er átta vetra og hafði hlotið fyrstu verðlaun fyrir byggingu í kynbótadómi í fyrra. Hann er undan Ómi frá Kvistum og systir hans er undan heiðursverðlaunahestinum Þóroddi frá Þóroddsstöðum.
Hin hryssan er einnig undan hátt dæmdum stóðhesti, Hrannari frá Flugumýri II, sem stóð efstur í A-flokki gæðinga á á síðasta Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal.
Að sögn Björns er algengara að óskilahross séu boðin upp á haustin, til dæmis þegar þau koma niður úr fjalli og eigandinn finnst ekki. Síðast var uppboð á óskilahrossi í desember árið 2015 á Norðurlandi vestra. Björn segir uppboðin ekki alveg hætt þó að þeim hafi fækkað mikið. Í því samhengi bendir hann á að reglur um grunnskráningu og örmerkingu hrossa hafi eflaust áhrif á að færri hross eru boðin upp.