Krefjast skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram beiðni á Alþingi til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, um að flytja Alþingi skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu. 

Í skýrslunni skuli meðal annars fjallað um þróunarhorfur með tilliti til umfangs ferðaþjónustunnar og fjölda ferðamanna, hugtakið þolmörk í samhengi við viðmiðanir um sjálfbærni og sjálfbærnimarkmið ferðaþjónustunnar, helstu álagsstaði og tegundir álags á umhverfi, samfélag, innviði og upplifun og um helstu áhrif og afleiðingar vaxtar ferðaþjónustunnar á atvinnu- og efnahagsmál.

Þá fjalli skýrslan einnig um mögulegar leiðir og aðferðir til að stýra fjölda, aðgengi og dreifingu ferðamanna og fýsileika þess að gerð verði áætlun á landsvísu; landnýtingaráætlun, um þróun ferðaþjónustu og ferðamennsku á landsvísu með tilliti til þolmarka og sjónarmiða um sjálfbæra ferðaþjónustu. 

Í greinagerð sem fylgir beiðni þingmanna VG segir að ekki þurfi að orðlengja um það hve mjög ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi á undanförnum árum. Ætla megi að vitneskja liggi fyrir um hagræn áhrif ferðaþjónustunnar og þýðingu hennar fyrir hagkerfið en hið sama sé ekki hægt að segja um áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru landsins að mati VG.

„Skýtur þar allverulega skökku við þar sem enginn vafi leikur á því að íslensk náttúra er meginástæða fyrir hingaðkomu flestra hinna erlendu ferðamanna sem sækja landið heim,“ segir m.a. í greinagerðinni. Mikilvægt sé því að Alþingi leggi skýrar línur um framtíð ferðaþjónustunnar og þær byggist á bestu mögulegu gögnum og rannsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka