Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi í dag samúðarkveðju fyrir hönd íslensku þjóðarinnar til Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, vegna hryðjuverksins í lestarstöð í St. Pétursborg.
Í kveðju forseta segir að hugur Íslendinga sé hjá fjölskyldum og vinum þeirra sem týndu lífi í árásinni og þeirra sem glíma við afleiðingar hennar á sjúkrahúsum. Brýnt sé að þjóðir heims taki höndum saman í baráttunni gegn hryðjuverkum og leiti hvarvetna friðsamlegra lausna.
Þess má geta að forseti Íslands átti viðræðufund með Pútín forseta fyrir fáeinum dögum í Arkhangelsk.