Magn arsens mælist 1 ng/m3

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík.

Niðurstöður nýrra mælinga úr mælistöðinni við Hólmbergsbraut eru svipaðar og áður en verksmiðja United Silicon í Reykjanesbæ var gangsett og sýna magn arsens í andrúmsloftinu rétt rúmlega 1 ng/m3.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun rennir þetta stoðum undir þá kenningu að mistök hafi verið gerð á rannsóknarstofu í Svíþjóð, þangað sem fyrirtækið Orkurannsóknir hefur sent sýni úr mælistöðinni við Hólmbergsbraut.

Sýnum úr stöðinni er safnað einu sinni í viku og um þriggja mánaða skammtur sendur út til rannsókna en í fyrstu sendingunni, sem náði til tímabils áður en verksmiðjan var gangsett, mældist styrkur arsens rúmlega 1ng/m3.

Í sendingu tvö, sem innihélt sýni sem tekin voru rétt áður og eftir að starfsemin hófst í verksmiðjunni, mældust öll sýni á bilinu 6-7 ng/m3.

Sýnin sem íslensk rannsóknarstofa prófaði í síðustu viku voru frá tímabilinu janúar og fram í miðjan mars 2017. Niðurstöðurnar voru, sem fyrr segir, þær að magn arsens í andrúmsloftinu væri um 1 ng/m3.

„Líkurnar á að raunverulegar mengunarsveiflur raðist svona niður á sýnasendingur eru hverfandi. Við göngum því núna út frá því að þessar mælingar upp á rúmlega 6ng/m3 séu rangar en það er samt enn verið að leita skýringa á því hvað fór úrskeiðis,“ segir í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn mbl.is.

Þar segir að Svíarnir séu að skoða málin á sínum enda.

mbl.is greindi frá því í síðustu viku að þegar sýnin voru send út gleymdist að senda með svokallað núllsýni, þ.a. nýja og ónotaða síu, til samanburðar við þær sem safnað var úr mælistöðinni.

Samkvæmt svörum Umhverfisstofnunar var það gert að þessu sinni en niðurstöðurnar sýndu að núllsýnið hefði haft lítið að segja og því lægi skýringin á misræminu í niðurstöðum mælinganna ekki þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert