Greiði 307,6 milljónir vegna skattsvika

Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fyrr­ver­andi eig­andi net­versl­un­ar­inn­ar buy.is og best­buy.is hefur verið dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsis og til að greiða 307,6 milljónir vegna skattsvika. Maðurinn sem heitir Friðjón Björgvin Gunnarsson, þarf að greiða sektina innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði. Eiginkona mannsins sem einnig var ákærð í málinu var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Maðurinn var ákærður fyrir stófelld und­an­skot á virðis­auka­skatt­greiðslum hjá tveim­ur fyr­ir­tækj­um sem hann var í for­svari fyr­ir sem og að hafa ekki gefið upp 41,2 millj­óna tekj­ur sín­ar á ár­un­um 2011-2013 og þar með svikist um að geriða 16,5 millj­ón­ir í tekju­skatt.

Færði 21,5 milljónir á eigin reikninga

Þá var hann fundinn sekur um peningaþvætti með að hafa látið hluta ávinnings af brotum sínum renna inn á bankareikning sinn og bankareikning eiginkonu sinnar. Fóru um 10 milljónir á reikning hans og 11,5 milljónir á reikning konunnar.

Neitaði maðurinn skattaundanskotum einkahlutafélaganna og peningaþvætti, en játaði að hafa staðið skil á röngum skattframtölum fyrir sig. Var hann engu að síður fundinn sekur í öllum ákæruliðum.

42 farsímar, hundruð minnislykla, fartölvur og raftæki gerð upptæk

Eiginkona hans var fundin sek um peningaþvætti með að hafa veitt viðtöku 11,5 milljónum á reikning sinn. Þá féllst dómurinn á að gera upptækar 4,9 milljónir á reikningi konunnar auk þess sem mikill fjöldi raftækja og tölvutækja sem fundust á heimili þeirra var gerður upptækur. Meðal ann­ars er um að ræða 42 stykki af Sam­sung-farsím­um, hundruð minn­islykla, far­tölv­ur og fjöl­marga aðra farsíma og raf­tæki ým­is­kon­ar.

Taldi kennitöluflakk ekki vera siðlaust

Málið kom fyrst upp í um­fjöll­un fjöl­miðla árið 2012 þegar DV fjallaði um meint brot manns­ins í tengsl­um við sölu á ým­is­kon­ar tölvu­búnaði, meðal ann­ars Apple-vör­um. Þá tjáðu umboðsaðilar Apple á Íslandi sig um viðskipta­hætti manns­ins og sögðu hann stunda kenni­töluflakk þar sem hann greiddi aðeins fyr­ir vör­urn­ar, en sleppti að greiða virðis­auka­skatt og önn­ur gjöld áður en hann færði svo rekst­ur­inn á nýja kenni­tölu. Bannaði neyt­enda­stofa umboðsaðilan­um í fram­hald­inu að viðhafa um­mæli um kenni­töluflakk og buy.is, en lagði þó enga sekt á viðkom­andi.

Síðar bannaði Neyt­enda­stofa buy.is að nota heiti sam­keppn­isaðilans en hann hafði stofnað fyr­ir­tæki með því nafni þótt sam­keppn­isaðili hans notaðist við sama nafn.

Maður­inn tjáði sig á þess­um tíma um það að hafa fært starf­semi buy.is á milli kennitalna og sagði á vefn­um Verðvakt­in að kenni­töluflakk væri ekki einu sinni siðlaust. Síðar var meðal ann­ars grein frá því að hann tengd­ist alla­vega 12 gjaldþrota fé­lög­um, en síðan þá hafa bæði Gegn ein­ok­un og 1949 bæst við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert