Sátu hjá við afgreiðslu samnings um uppbyggingu í Vesturbugt

Tillögur að þéttingu byggðar í Vesturbugt.
Tillögur að þéttingu byggðar í Vesturbugt.

Borgarráð samþykkti í dag samning um uppbyggingu í Vesturbugt við gömlu höfnina í Reykjavík en þar verða byggðar 176 íbúðir ásamt verslunar- og þjónustuhúsnæði. Framkvæmdir eiga að hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift samnings og skal lokið eigi síðar en 60 mánuðum frá undirritun.

„Til grundvallar samningnum liggja niðurstöður í samkeppnisútboði sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Að vinningstillögunni standa VSÓ Ráðgjafar ehf., BAB Capital ehf., PK Arkitektar ehf., Basalt arkitektar ehf., Trípólí arkitektar sf. og Krads arkitektar ehf. Tilboðsgjafi hefur nú stofnað sérstakt félag, Vesturbugt ehf., sem annast mun uppbyggingu svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg,“ segir í tilkynningu frá borginni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins en þeir töldu byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi of mikið miðað við grunnflöt og heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar.

Bókun Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir uppbyggingu á reitnum en telja að
byggingarmagn (lóðanýting, rúmmál og hæð húsa) samkvæmt deiliskipulaginu sé
of mikið miðað við grunnflöt og heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar. Graeme
Massie arkitektar, sem áttu vinningstillögu í opinni hugmyndasamkeppni um
rammaskipulag gömlu hafnarinnar, hafa sent frá sér yfirlýsingu um að stóra þætti
í vinningstillögunni sé ekki að finna í deiliskipulaginu. Gamli vesturbærinn hefur
í meira en öld þróast í nánu sambandi við höfnina en hið nýja hverfi mun
einkennast af einsleitum byggingum sem eiga lítið skylt við eldri byggð og
byggingarsögu borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar að
yfirbragð og fjölbreytileiki Gamla Vesturbæjarins eigi að vera ríkjandi á svæðinu.
Lítil áhersla er á opin svæði á reitnum og ekki er gert ráð fyrir sparkvelli eða öðru
svæði til íþróttaiðkunar þar eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa
ítrekað lagt til. Slæmt er að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og
Vinstri grænna skuli vitandi vits ekki nýta þetta tækifæri til að bæta úr miklum
skorti á íþróttaaðstöðu í Gamla Vesturbænum heldur leggja áherslu á sem þéttasta
uppbyggingu. En Gamli Vesturbærinn er það íbúahverfi borgarinnar sem býr við
rýrustu íþróttaaðstöðuna þrátt fyrir að þar búi um tólf hundruð börn og unglingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert