Þyrlurnar verði keyptar strax

Stefnt er að því að Gæslan fái þrjár nýjar þyrlur …
Stefnt er að því að Gæslan fái þrjár nýjar þyrlur á næstu árum. Halldór Nellett vill flýta kaupunum. mbl.is/Árni Sæberg

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2018 til 2022 er boðað að keyptar verði þrjár björgunarþyrlur fyrir Landhelgisgæsluna.

Stefnt er að því að bjóða þyrlukaupin út á næsta ári, 2018, en „búið að byggja inn í útgjaldaramma málefnasviðsins fyrir árin 2019-2022 framlög til kaupa á nýjum þyrlum sem nema samtals ríflega 14 milljörðum króna,“ eins og segir orðrétt í fjármálaáætluninni.

Starfshópur sem skilaði skýrslu til innanríkisráðherra í fyrra taldi það skynsamlegasta kostinn að Landhelgisgæslan hefði yfir að ráða þremur þyrlum sem væru allar hliðstæðar að stærð og getu og þær þyrlur sem LHG hefur yfir að ráða í dag.

Halldór B. Nellett, einn reyndasti skipherra Landhelgisgæslunnar, segist fagna þessari ákvörðun. En hann vill að farið verði í útboð strax en ekki beðið fram á næsta ár.

Halldór segir að vegna olíukreppunnar sem reið yfir heiminn sé verð á þyrlum hagstætt um þessar mundir og gengisþróunin hafi einnig verið hagstæð. Það viti enginn hve lengi krónan verði eins sterk og hún er núna.

„Það er grátlegt að ekki skuli vera búið að kaupa þyrlur fyrir löngu. Við erum búnir að borga alltof mikla peninga í leigu á þyrlum síðan Varnarliðið fór 2006,“ segir Halldór.

Landhelgisgæslan hefur nú yfir að ráða þremur þyrlum, þar af eru tvær leiguþyrlur. „Þetta eru orðnar gamlar og þreyttar vélar sem við erum með þótt þær hafi auðvitað fengið gott viðhald,“ segir Halldór.

Þá bendir hann á að leiguvélarnar tvær séu að sumu leyti vanbúnar. Þær geti til dæmis ekki tekið eldsneyti frá varðskipunum, hvorki þeim íslensku né dönsku, sem oft eru Íslandsmiðum. Þetta sé afleitt því ein þyrla geti lítið gert þegar fara þarf í verkefni langt út á haf. Hún þurfi stuðning frá annarri þyrlu í slík verkefni.

Þyrla LHG, TF-LIF, var smíðuð 1986 og er því orðin rúmlega 30 ára gömul auk þess sem kominn er tími á endurnýjun á hluta búnaðar hennar. Stefnt er að því að endurnýja blindflugsbúnað vélarinnar fyrir 150 milljónir á næsta ári.

Leigusamningar vegna leiguvélanna tveggja, TF-GNA og TF-SYN, renna út á árunum 2017 og 2018.

Þá kemur fram í greinargerð með fjármálaáætluninni að úthaldsdögum varðskipa hefur fækkað undanfarin ár og það getur tekið varðskip allt að 48 klukkustundir að komast á vettvang slysa eða óhappa innan efnahagslögsögunnar. Tvær varðskipsáhafnir séu á varðskipunum Þór og Tý. Þau séu því úti til skiptis, hvort skip um helming ársins, en varðskipið Ægir er ekki haffært. Árið 2016 var ekkert útkallshæft skip til reiðu 165 daga ársins.

Fram kemur að kostnaður við að bæta við áhöfn sé áætlaður um 330 milljónir króna en til að halda skipi í fullri nýtingu þurfi tvær áhafnir. „Til þess að stytta viðbragðstíma niður í 24 klst. þarf að fjölga skipum í notkun og áhöfnum en ekki er svigrúm til þess í fjármálaáætlun 2018–2022,“ segir orðrétt í greinargerðinni.

Ekkert varðskip á sjó

„Ég harma að ekki sé svigrúm til að fjölga í áhöfnum varðskipa,“ segir Halldór. Staðan er sú núna að tvö skip eru starfhæf og eitt með útrunnið haffæri, Ægir. Varðskipin Þór og Týr séu nú gerð út með tæplega tveimur áhöfnum. Stóran hluta ársins sé ekkert varðskip á sjó sem sé ótækt. Halldór bendir á að nágrannþjóðir okkar við Atlantshafið leggi alla áherslu á að vera með öfluga gæslu og björgunargetu á sjó.

„Með fullri virðingu fyrir þyrlum þá geta þær ekki gert allt sem varðskipin geta gert. Ég er gamall þyrlumaður og spilmaður, var í því starfi meira og minna í áratug, frá 1986 til 1996, og er því með mikla reynslu. Þyrlurnar geta gert marga frábæra hluti. En sumt ráða þær ekki við og þá þurfa varðskipin að koma til sögunnar,“ segir Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert