Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun Jens Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumann hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi, fyrir að spillingu í starfi. Pétur Axel Pétursson var dæmdur í níu mánaða fangelsi en Gottskálk Þorsteinn Ágústsson var sýknaður í málinu. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is.
Jens og Pétur voru einnig dæmdir til að greiða allan sakarkostnað í málinu.
Fram kom í ákærunni í málinu að Gottskálk, sem vinnur sem framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, hafi verið í samskiptum við Jens og lofað honum 500 þúsund króna greiðslu og tveimur flugmiðum fyrir skýrslu PriceWaterHouseCoopers um Kaupþing banka sem bar yfirskriftina „Slitastjórn Kaupþings banka hf. „Project Staying Alive“ September 2010. Strictly confidential.“
Pétur, sem hafði áður hlotið dóma vegna fíkniefnamála, og Jens voru ákærðir vegna meintra brota þegar Jens upplýsti Pétur um stöðu mála hans hjá lögreglunni og hverjir væru uppljóstrarar lögreglunnar. Fram kom í ákærunni að Jens hafi þegið gjafir í tengslum við þessi samskipti.