Bílvelta varð á Reykjanesbrautinni um hálfþrjúleytið í nótt, er bíll valt í Hvassahrauni sunnan við álverið í Straumsvík. Fyrsta tilkynning benti til þess að um alvarlegt slys hefði verið að ræða að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sem sendi dælubíl á vettvang ásamt sjúkrabíl.
Betur fór þó en á horfðist og ekki kom til þess að þörf reyndist á að beita klippum. Var ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, kominn út þegar slökkviliðið kom á slysstað.
Farið var með manninn til aðhlynningar á slysadeild, en að sögn slökkviliðsins leit hann ekki út fyrir að vera mikið slasaður. Bíllinn er hins vegar illa farinn.