Vinirnir Sölvi Reyr Magnússon og Tristan Marri Elmarsson skelltu sér í sund í Laugardalslauginni í gær. Hlutirnir æxluðust þannig að þeir fengu svo far heim með Guðna Th. Jóhannessyni forseta.
Sölvi og Tristan eru þrettán ára. Móðir Tristans, Rakel Ósk Þórhallsdóttir, ætlaði að sækja þá eftir sundferðina en var aðeins sein fyrir þar sem hún var að hjálpa systur sinni að flytja. Þegar félagarnir sáu Guðna forseta við laugina, en þar hafði hann verið að afhenta verðlaun á sundmóti, fór Tristan upp að honum og spurði hvort hann gæti skutlað þeim heim. Guðni tók vel í það.
Rakel Ósk lýsir þessu svona á Facebook: Hann sonur minn Tristan Marri er ALGJÖRLEGA ófeiminn og mjög ræðinn drengur. Hann hringdi í mig fyrir korter síðan og sagði: Mamma, þú þarft ekki að sækja mig í sund ég hitti Guðna forseta hér og sagði honum að þér seinkaði aðeins vegna þess að þú værir að hjálpa systir þinni að flytja og hvort hann gæti nokkuð keyrt mig og vin minn heim. Svo mamma þú þarft ekki að sækja mig ég kem á forsetabílnum heim eftir smá stund!“
Rakel hélt að sonurinn væri að grínast en svo reyndist ekki vera því skömmu síðar komu þeir Tristan og Sölvi heim að Sogavegi í bíl forsetans. Þeir voru að sögn Magnúsar Reyrs, föður Sölva, í skýjunum með þetta. „Hvar í veröldinni myndi þetta gerast annars staðar en hér og með Guðna? Óborganlegt!“