„Köfunin var á vegum Landhelgisgæslunnar og einfaldlega til þess að sjá hvernig væri umhorfs þarna undir. Það var ekki verið að leita að neinu,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is spurður um rannsókn á starfsemi rannsóknarskipsins Seabed Constructor innan íslensku efnahagslögsögunnar en skipið var fært til hafnar nýverið þar sem yfirvöld töldu sig ekki hafa fengið skýr svör um verkefni skipsins.
Grímur segir aðspurður að þrír karlmenn hafi verið yfirheyrðir í gær. Skipstjórinn og tveir úr rannsóknarteymi skipsins. Fleiri hafi ekki verið yfirheyrðir og frekari yfirheyrslur séu ekki fyrirhugaðar. Aðspurður segir hann að skipið fari væntanlega aftur úr höfn í fyrramálið. Ekki verði farið fram á að skipið verði hér lengur. „Við teljum okkur vera búna að upplýsa nægjanlega mikið um athafnir skpsins í efnahagslögsögunni,“ segir hann.
Spurður hvort um sé að ræða starfsemi sem þurfi leyfi fyrir segir Grímur að segja megi að um það sé lögfræðilegur ágreiningur. Spurður hvað skipið sé að gera hér við land segir Grímur að hann vilji nú ekki upplýsa hvað hefði komið fram við yfirheyrslurnar en vísi einfaldlega í það sem komið hefði fram í fjölmiðlum frá þeim. Þar hefur komið fram að tilgangurinn sé að bjarga verðmætum úr flaki þýska flutningaskipsins Minden sem sökk árið 1939.
Spurður um framhaldið segir hann að lögreglan ljúki rannsókn sinni á næstunni og þá verði að taka afstöðu til þess hvort um leyfisskyldar athafnir hafi verið að ræða eða ekki. „Ef ákæruvaldið telur að eitthvað hafi komið fram við rannsókn málsins sem feli í sér refsiverða háttsemi þá einfaldlega bregst það við í samræmi við það en annars ekki.“