„Menn eru að jafna sig á þessu“

Frá minningarathöfninni við Drottningargötu í gær.
Frá minningarathöfninni við Drottningargötu í gær. AFP

„Menn eru að jafna sig á þessu og lífið er að færast í eðlilegt horf,“ segir Bryndís Kjartansdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Svíþjóð, spurð út í andrúmsloftið eftir hryðjuverkaárásina í Stokkhólmi á föstudag.

Minningarstund var haldin fyrr í dag fyrir utan ráðhúsið í borginni vegna þeirra fórnarlamba sem létust. Þar ávarpaði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, mannfjöldann. Þar að auki var mínútuþögn í landinu í morgun vegna fórnarlambanna.  Stór minningarstund var einnig haldin í gær við Drottningargötu þar sem voðaverkið var framið.

Frá minningarathöfninni í gær.
Frá minningarathöfninni í gær. AFP

„Áherslan var lögð á að lífi skuli ganga sinn vanagang áfram,“ segir Bryndís um minningarathafnirnar.

Úsbekinn Rakhmati Akilov varð fjórum að bana í árásinni þegar hann ók inn í mannfjölda í borginni. Fimmtán særðust. 

AFP

Íslendingar vel upplýstir

Bryndís segir að eftir hryðjuverkaárásina hafi mikil áhersla verið lögð á það hjá sendiráðinu að upplýsa Íslendinga eins vel og mögulegt var um það sem hafði gerst. Öllum ábendingum frá lögreglu um hvar fólk ætti að halda sig var komið á framfæri, auk þess sem látið var vita um stöðuna á samgöngumálum en allar samgöngur fóru úr skorðum eftir árásina. Þær voru komnar í eðlilegt horf í gær.

AFP

Talið er að um tvö þúsund Íslendingar búi í Stokkhólmi. Þar að auki er borgin vinsæll ferðamannastaður á meðal Íslendinga. Eftir árásina hvatti sendiráðið Íslendinga í Stokkhólmi til að láta vita af sér. Bryndís segir að flestir hafi gert það í gegnum Facebook en hún hefur ekki tölu á því hversu margir létu vita af sér.

AFP

„Það voru Íslendingar þarna nálægt. Við höfum heyrt í þeim og fleirum,“ segir hún og staðfestir að engir Íslendingar hafi slasast í árásinni. „Það er meðal annars okkar hlutverk að kanna hvort Íslendingar skaðist þegar svona kemur upp. Það eru ákveðnar boðleiðir fyrir upplýsingar af því tagi.“

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert