Áform eru um að framkvæmdir á nýju hverfi í Hnoðraholti í Garðabæ með um 1.200 til 1.500 íbúðum gætu hafist á miðju næsta ári. Þar verður meðal annars grunnskóli og fjölnota íþróttahús. Efnt verður til samkeppni um rammaskipulag svæðisins fljótlega og eftir það verður hægt að deiliskipuleggja svæðið. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð með litlum raðhúsum í bland við einbýlishús efst á holtinu og fjölbýli neðar.
„Við viljum hefjast fljótlega handa því það vantar húsnæði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Öll skipulagsvinna og bygging á svæðinu verður auðveldara eftir að Garðabær keypti restina af jörðinni Vífilsstöðum af ríkinu í síðustu viku, að sögn Gunnars.
Jörðin Vífilsstaðir er alls rúmlega 1.000 hektarar að stærð og er nú öll í eigu Garðabæjar. Í síðustu viku keypti Garðabær alls um 202,4 hektarar svæði sem liggur kringum Vífilsstaðaspítala, austan Vífilsstaða (Skyggnir), núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni (Svínahrauni) og Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli. Kaupverðið var 558,6 milljónir króna. „Þessar viðræður hafa verið í gangi í langan tíma. Þetta er eitt besta byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnar.
Árið 1997 keypti Garðabær 812 hektara úr jörðinni á 140 milljónir króna. Í þeim kaupum var meðal annars Vífilsstaðahlíðin, Hnoðraholt, Vetrarmýri, Smalaholt og hluta Heiðmerkur.
Við skipulag nýja hverfinu þyrfti hluti af golfvellinum mögulega að færast nær Vífilsstaðavatni. Hugmyndir eru um að byggja nær golfsvellinum og ramma hann inn. Gunnar tekur fram að ekki er búið að ákveða neitt þar sem ekki er hafin samkeppni um rammaskipulag á svæðinu.
Byggingar á Vífilsstöðum eru enn í eigu ríkisins en Garðabær er með forkaupsrétt á þeim. „Ég sé fyrir mér að ríkið haldi áfram að reka hjúkrunarheimilið enda viljum við hafa það áfram,” segir Gunnar. Hugmyndir eru einnig um að byggja á svæði sem er nálægt Vífilsstaðaspítala og sú byggð yrði þá nær Reykjanesbraut.