Óábyrgt að auka ekki viðbúnað

Lögreglumaður á verði í Osló.
Lögreglumaður á verði í Osló. AFP

Það væri óábyrgt að auka ekki þjálfun og viðbúnaðargetu íslenskra lögreglumanna vegna hugsanlegra hryðjuverka hér á landi. Þetta segir Gylfi Hammer Gylfason, settur aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild ríkislögreglustjóra. „Þetta er alltaf að færast nær okkur."

Eftir hryðjuverkaárásina í Stokkhólmi á föstudaginn ákvað greiningardeild ríkislögreglustjóra að virkja verklag vegna hryðjuverkaárása í nágrannalöndum. 

Verklagið er virkjað í hvert sinn sem hryðjuverk eru framin í nágrannalandi. Síðasta var þetta gert eftir árásina í London 22. mars. „Við reynum að átta okkur á hvað er í gangi og hvaða upplýsingar við náum í. Við erum í samstarfi við öryggis- og lögreglustofnanir á Norðurlöndunum og þær miðla upplýsingum til okkar,“ segir Gylfi. Í framhaldinu er gert stöðumat þar sem upplýsingar eru sendar út til íslensku lögreglunnar og lykilstjórnenda þar um ástand mála.

„Við förum yfir stöðuna og skoðum hvort þetta tengist okkur og hvort við þurfum að grípa til einhverra ráðstafana.“

Mikilvægt er að lögreglu berist upplýsingar úr samfélaginu.
Mikilvægt er að lögreglu berist upplýsingar úr samfélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Varað við hermikrákum

Skömmu eftir árásina í Stokkhólmi var maður stöðvaður í Osló í Noregi sem ætlaði að sprengja þar sprengju. Að sögn Gylfa hefur norska öryggislögreglan varað sérstaklega við svokölluðum „copycats“, eða þeim sem herma eftir öðrum hryðjuverkum.

Hann segir erfitt að eiga við ástandið eins og það er í dag. Vegna versnandi stöðu Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak hafa hryðjuverkasamtökin hvatt stuðningsmenn sína til að koma ekki og berjast með þeim, heldur fremja frekar hryðjuverk í sínum heimalöndum, þar á meðal í Evrópu. „Það er voðalega erfitt að eiga við þetta því það er meiri möguleiki fyrir lögreglu að upplýsa ef þetta eru hópar manna sem eru að skipuleggja eitthvað,“ útskýrir Gylfi og nefnir að einstaklingar verða í auknum mæli fyrir áhrifum á netinu, m.a. frá áróðri Ríkis íslams, og taka upp á því að fremja ódæðin einsamlir.

„Það þarf ekki flókinn búnað. Menn geta orðið sér úti um hníf, exi eða bíl. Það er erfiðara að upplýsa svona áður en það gerist.“

Flutningabíllinn sem var notaður í árásinni í Stokkhólmi.
Flutningabíllinn sem var notaður í árásinni í Stokkhólmi. AFP

Þarf meiri mannskap í lögregluna

Gylfi segir að þjálfun lögreglumanna hafi verið aukin til að bregðast við hryðjuverkum, auk þess sem viðbúnaðarskipulag lögreglunnar hefur verið endurskoðað. Hann tekur samt fram að lögreglan geti bætt sig. Bæta þurfi við almennum lögreglumönnum og mönnum í sérhæfðar miðlægar deildir ríkislögreglustjóra, svo sem greiningardeild, alþjóðadeild, almannavarnardeild og sérsveit. Einnig þarf að efla búnað sérsveitarinnar.

Í þjálfun lögreglumanna er m.a. lögð áhersla á að koma auga á breytingar í fari manna, reynt að sjá hvort þeir eru að mynda með sér öfgafullar skoðanir og ætli jafnvel að búa til sprengju.

„Annað væri óábyrgt að undirbúa lögregluna ekki fyrir svona atburð, því þetta er alltaf að færast nær og nær. Norðmenn hugsuðu þannig áður en Breivik lét til skarar skríða að það væri óhugsandi að það gæti verið framið hryðjuverk í Noregi. Ég sá viðtöl við borgara í Svíþjóð sem trúðu því ekki að þetta gæti gerst í Svíþjóð,“ segir Gylfi.

„Við vonum að þetta gerist ekki hér. Við búum ekki yfir upplýsingum um að eitthvað sé í bígerð eða undirbúningi.“

Fórnarlambanna í Stokkhólmi minnst.
Fórnarlambanna í Stokkhólmi minnst. AFP

Verður fyrir áhrifum á netinu 

Hann nefnir að heimurinn hafi breyst mikið með tilheyrandi hátækni þar sem upplýsingar flæða út um allt. „Internetið spilar stórt hlutverk. Þar er miðlað ýmsum áróðri og þetta getur náð til ungs fólks sem er rótlaust og með veikt félagslegt net. Það getur orðið fyrir áhrifum og myndað með sér öfgafullar skoðanir og fengið hvatningu hryðjuverkasamtaka.“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra beindi því til lögreglunnar á Suðurnesjum eftir árásina í Stokkhólmi að vera sérstaklega vakandi vegna flugs frá Svíþjóð.

Gylfi H. Gylfason.
Gylfi H. Gylfason. mbl.is/Árni Sæberg

Vopnaðir um páskana

Að sögn Gylfa verða lögreglumenn á flugstöð Leifs Eiríkssonar vopnaðir við dagleg störf yfir páskahátíðina. Um öryggisráðstöfun er að ræða en um páskana í fyrra var hryðjuverkaárásin á flugvellinum í Brussel framin. „Við höfum beint því til lögreglumanna að vera með opin augun og á varðbergi.“

Hann tekur fram að íslenska samfélagið sé öðruvísi samsett en á Norðurlöndunum og vonar að engar árásir verði gerðar hér. „Við erum ekki með vígamenn sem hafa farið og barist í Sýrlandi og Írak, sem hefur verið að gerast í hinum Norðurlöndunum. Við erum ekki, svo vitað sé til, með hóp af mönnum sem hafa gerst öfgafullir í skoðunum."

Gylfi bendir á að mikilvægt sé að lögreglu berist upplýsingar úr samfélaginu um einstaklinga sem kunna að vera reiðubúnir að fremja ódæðisverk. „Berist slíkar upplýsingar ekki hefur lögregla ekki möguleika til inngripa til þess að afstýra þeim. Hér er um málefni alls samfélagsins að ræða,"  segir hann. 

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert