Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri og 46% eigandi Fréttatímans og stofnandi Frjálsrar fjölmiðlunar, segir að peningurinn sem safnaðist við stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar hafi aldrei verið innheimtur.
„Peningarnir hafa ekki runnið neitt því þeir voru aldrei innheimtir. Fólk skráði sig fyrir framlögum en þar sem það var óvissa um reksturinn þá var ekki innheimt hjá neinum,“ segir Gunnar Smári í samtali við mbl.is.
Áður hafði Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, sagt að engar fjárupphæðir úr Frjálsri fjölmiðlun hefðu komið inn á borð Fréttatímans.
Gunnar segir að áheitin hafi aldrei verið send í banka til innheimtu. „Þetta eru því í raun ekki peningar, heldur áheit sem voru ekki innheimt.“
Gunnar vinnur þessa dagana að stofnun Sósíalistaflokks Íslands, sem verður formlega stofnaður 1. maí næstkomandi á baráttudegi verkalýðsins. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, sagði í morgun að menn í hans flokki hefðu óskað eftir því að ræða við Gunnar Smára.
„Ég hitti hann í bíó um daginn,“ segir Gunnar og hlær þegar hann er spurður að því hvort hann sé jákvæður í garð Þorvalds.
„Ertu ekki jákvæður og glaður við fólk sem þú hittir í bíó?“