Konur sem fá ekki að skrá sig sem foreldra drengs sem staðgöngumóðir fæddi í Bandaríkjunum, taka ákvörðun eftir páska hvort farið verði með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þetta segir Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður.
Í byrjun apríl staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms í máli kvennanna tveggja sem fóru fram á að drengurinn yrði skráður sem sonur þeirra hjá Þjóðskrá. Barnið fæddist fyrir fjórum árum og var bæði gjafaegg og gjafasæði notað. Bandarískur dómstóll hefur staðfest að konurnar tvær séu foreldrar drengsins. Á það féllst Þjóðskrá ekki og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.