Ekki dottið í hug að vísa farþega frá borði

Icelandair segir yfirbókanir á flugsætum ekki algengar. Komi til þeirra …
Icelandair segir yfirbókanir á flugsætum ekki algengar. Komi til þeirra sé óskað eftir sjálfboðaliðum til að fresta flugi sínu og þeim greiddar bætur. Aldrei hafi komið til vandræða af þessum sökum. mbl.is/Árni Sæberg

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að engum hjá flugfélaginu hafi dottið í hug að fara þá leið að vísa farþegum frá borði, bjóðist enginn til þess, ef yfirbókað er í flug líkt og United Airlines gerði og hefur hlotið bágt fyrir. Hann segir að sér vitanlega hafi slík tilvik aldrei komið upp hjá Icelandair.

„Þetta hefur mér vitanlega aldrei komið upp, og í raun engum dottið í hug sem aðferð,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Starfsmenn United Airlines óskuðu eftir sjálfboðaliðum til að fresta flugi sínu vegna yfirbókunar á sunnudag. Allir farþegar voru þá komnir um borð en rýma þurfti fjögur sæti til að koma starfsmönnum flugfélagsins fyrir. Vélin var þá stödd á flugvelli í Chicago. Enginn bauðst til að yfirgefa vélina og voru þá fjórir farþegar handvaldir og þeir beðnir að fara frá borði. Einn maður, læknirinn David Dao, neitaði því og var þá tekinn með valdi og dreginn úr sæti sínu.

Fá greiddar bætur

Guðjón segir að Icelandair fylgi Evrópureglugerðum hvað yfirbókanir varðar og segir þær nokkuð skýrar. Ef til yfirbókunar kemur þá fá farþegar sem samþykkja að fresta flugi sínu greiddar bætur. Upphæðin fer eftir vegalengdum þannig að fyrir flug til Evrópu er upphæðin 400 evrur, um 50 þúsund krónur, og til Bandaríkjanna 600 evrur eða rúmlega 70 þúsund.

Guðjón segir ekki algengt að yfirbókað sé í flugvélar almennt. „Hjá okkur gerist það fyrst og fremst ef bilun verður eða önnur röskun á flugi, og það reynist nauðsyn að skipta um flugvél frá því sem áætlað var, og færa farþega yfir í vél með færri sætum. Við leysum ávallt slíkan vanda að mestu með því að bjóða þeim hluta farþega sem eru í tengiflugi að komast á áfangastað með öðrum flugum,“ segir Guðjón og tekur dæmi: „Ef farþegi er á leið með okkur frá Kaupmannahöfn til New York með millilendingu í Keflavík þá finnum við flug fyrir hann með öðrum flugfélögum á áfangastað og svo framvegis.“

Hann segir það koma fyrir að óskað sé eftir sjálfboðaliðum til að fresta flugi sínu og að þá sé stuðst við ramma Evrópureglugerðanna. „Það hefur alltaf gengið upp og farþegar gripið slík tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert