Andri Steinn Hilmarsson
Landsréttur, nýtt millidómstig sem tekur til starfa 1. janúar 2018, verður fyrst um sinn í Kópavogi, en unnið er um þessar mundir að undirbúningi komu Landsréttar í húsnæði sem Siglingastofnun hafði áður til umráða að Vesturvör 2 á Kársnesi.
Breyta þarf húsnæðinu og laga það að þörfum dómstólsins, en stýrihópur um húsnæðismálin er að störfum innan ráðuneytisins, m.a. skipaður dómurum og öðrum sem unnið hafa að þarfagreiningu fyrir sambærilegt húsnæði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Dómstóllinn hefur heimild til að vera utan Reykjavíkur í bráðabirgðahúsnæði í fimm ár, en lengi hefur verið til skoðunar að byggja á Stjórnarráðsreitnum og hefur hann verið nefndur sem framtíðarhúsnæði Landsréttar ásamt stjórnarráðsbyggingu og hugsanlega Héraðsdómi Reykjavíkur.