Skýrsla um orsakir flugslyss sem varð á Akureyri á frídegi verslunarmanna, 5. ágúst 2013, er nú í umsagnarferli hjá aðilum málsins. Komi ekkert upp í því ferli má gera ráð fyrir að lokaskýrslan komi út í byrjun maí. Þetta segir Þorkell Ágústsson, forstöðumaður Rannsóknarnefndar samgönguslysa, í samtali við mbl.is.
Um var að ræða sjúkraflugvél frá flugfélaginu Mýflugi. Þrír voru í vélinni þegar hún brotlenti og létust tveir þeirra, flugstjóri og sjúkraflutningamaður. Þriðji maðurinn hlaut minni háttar meiðsli.
Í október 2013 birti rannsóknarnefndin bráðabirgðaskýrslu um slysið. Þar kom fram að þegar flugvélin nálgaðist kappakstursbrautina hafi hún misst hæð og vinstri vængur hennar snert jörð við hægri hlið brautarinnar með þeim afleiðingum að hún brotlenti. Vélin hafði flutt sjúkling til Reykjavíkur frá Hornafirði 5. ágúst 2013 en þegar áhöfn sá til Akureyrarflugvallar og lauk blindflugi var óskað eftir því við flugturninn að fá að fljúga einn hring yfir bæinn sem fékkst samþykkt.