Pétur Jóhann Sigfússon, leikari, útvarpsmaður og uppistandari, verður á ferð og flugi um páskana. Hann var með uppistandssýningar á Blönduósi í gærkvöld og Græna hattinum á Akureyri í dag, skírdag.
„Þetta er gamalt og nýtt efni sem er að mörgu leyti sýningin Pétur Jóhann – Óheflaður en ég hef bætt efni við hana og núna heitir hún Óheflaður – að mestu,“ segir Pétur Jóhann og vísar hér í sýningu sína Pétur Jóhann – Óheflaður sem var tveggja klukkustunda uppistand.
„Ég þori ekkert að taka það skref að segja að þetta sé Óheflaður-sýningin, því meirihlutinn er nýtt efni, myndi ég segja,“ segir Pétur Jóhann.
Spurður hvort aukin umræða á samfélagsmiðlum og hneykslan á ummælum annarra hafi þau áhrif að uppistandarar séu varkárari með ummæli sín segir Pétur Jóhann það alls ekki vera þannig. „Ég held ekki, ég held þetta hafi þveröfug áhrif og menn bæti frekar í. En það er bara mín skoðun.“
Hann segist ekki hafa fundið fyrir því að fólk hneykslist í meiri mæli yfir ummælum grínara en annarra. „Ég held að það sé þannig með listamenn yfirhöfuð að þeir taki það ekki mikið inn á sig. Ég held að fólk sé yfirhöfuð bara að reyna að fara sínar eigin leiðir í hverju sem það er að gera.“
Spurður hvað sé á döfinni segir Pétur Jóhann að framtíðin sé að mörgu leyti óráðin.
„Það er nýbúið að frumsýna Asíska drauminn (sjónvarpsþætti á Stöð 2), hann mun renna sitt skeið og svo er náttúrulega næsta haust. Það er byrjað að undirbúa hvað verður gert eftir sumarið, varðandi sjónvarpið þá, en það er svo sem ekkert sem ég þori að nefna,“ segir Pétur Jóhann og hlær.
Spurður hvort fleiri uppistandssýninga sé að vænta segist hann ætla að taka stöðuna eftir páska. „Ég ætla að sjá hvernig þessar tvær sýningar ganga. Ég tek svo ákvörðun um framhaldið fljótlega eftir páska. Ég yrði ekkert hissa ef ég myndi hlaða í nokkrar sýningar hér og þar um landið, til dæmis í tengslum við bæjarhátíðir.“