Voru byrjaðir að rífa flakið

Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi …
Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi þess. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Skipverjar á rannsóknarskipinu Seabed Constructor voru byrjaðir að rífa flakið af þýska kaupskipinu Minden þegar Landhelgisgæslan hafði afskipti af því um síðustu helgi. Þetta segir Auðun Kristinsson, aðgerðastjóri Gæslunnar í samtali við mbl.is. 

Rannsóknarskipið er núna statt á þeim stað þar sem flakið af Minden hvílir á sjávarbotni. Auðunn segir að fyrir liggi að skipverjar geti ekki haldið áfram framkvæmdum sínum án þess að fá til þess leyfi frá Umhverfisstofnun enda ljóst að þær geti haft í för með sér mengun fyrir lífríki sjávar.

Skipverjar fengu leyfi til þess að sækja verkfæri sem þeir notuðu til þess að rífa flakið og skildu eftir þegar Landhelgisgæslan gaf þeim fyrirmæli um að halda í höfn. Haft var eftir Georg K. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, í Morgunblaðinu í dag að til hafi staðið að klippa skrokk skipsflaksins til þess að ná úr því verðmætum. Sú vinna mun hafa verið byrjuð.

„Þeir munu klára þá vinnu núna á milli þrjú og fjögur og síðan fara þeir bara,“ segir Auðunn. Hann segir aðspurður að skipverjar hafi ekki í hyggju að halda framkvæmdum sínum áfram fyrr en leyfi Umhverfisstofnunar liggi fyrir.

Landhelgisgæslan hefur verið með tvo fulltrúa um borð í rannsóknarskipinu síðan það lagði úr höfn fyrr í vikunni í kjölfar rannsóknar lögreglu. Auðunn segir að þeir verði sóttir af þyrlu Gæslunnar síðar í dag þegar skipverjar hafi lokið við að ná í verkfærin sín og haldið á brott.

Spurður hvort hann viti til þess að aðstandendur rannsóknarskipsins ætli að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar segist Auðunn ekki vita það en hins vegar séu þeir ekki búnir að því.

Kaupskipið Porta, systurskip Minden.
Kaupskipið Porta, systurskip Minden. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert