„Verst að geta ekki hjálpað þeim“

Kveikt á kerti fyrir fórnarlömb stríðsins í Sýrlandi á páskadag.
Kveikt á kerti fyrir fórnarlömb stríðsins í Sýrlandi á páskadag. AFP

Á annað hundrað almennir borgarar voru drepnir í einni árás í Sýrlandi í gær. Á hverjum degi deyja þar börn og fullorðnir sem enga sök eiga á stríðinu. Khatt­ab al-Mohammad flúði ásamt fjölskyldu sinni heimalandið fyrir fimm árum og hélt að þau myndu snúa fljótlega heim til Aleppo. Raunin er önnur og hefur fjölskyldan búið á Akureyri á annað ár en þangað komu þau úr flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Líbanon.

Khatt­ab al-Mohammad segir skelfilegt að heyra þessar sögur frá Sýrlandi og ekki síst að geta ekki veitt vinum og fjölskyldu aðstoð sem líða þjáningar. En á sama tíma séu þau fegin að vera örugg hér á Íslandi þar sem þeim hefur verið mjög vel tekið. Hann segir að Akureyri minni sig um margt á gamla heimabæinn hans, nema kannski veðurfarið. Hér séu allir boðnir og búnir að veita þeim aðstoð og fólkið standi saman og haldi utan um íbúa sína.

Loftárásir voru gerðar á borðina Daraa,sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna, …
Loftárásir voru gerðar á borðina Daraa,sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna, í dag. AFP

Ræturnar eru í Sýrlandi

„En Sýrland er eftir sem áður heimili okkar, er okkar land. Þar liggja rætur okkar og því finnst okkur hræðilegt og um leið sorglegt að sjá og heyra hvað era ð gerast þar. Þrátt fyrir að við séum að hefja nýtt líf í nýju landi þar sem við eignumst nýja vini þá er Sýrland alltaf í hjarta okkar og huga. Við sjáum myndir frá heimalandinu og fáum fréttir og það er ekki hægt að láta sem ekkert sé. Þetta er raunveruleikinn sem vinir og fjölskylda okkar standa frammi fyrir. Það er hræðilegt og verst að geta ekki hjálpað þeim,“ segir Khattab.

Khattab er frá Austur-Aleppo og er fátt sem minnir á þá fornu borg lengur eftir stríðsrekstur síðustu sex ára.

Khattab er í hópi sýrlenskra flóttamanna sem komu hingað til lands í janúar 2016 úr flóttamannabúðum í Líbanon en hann flúði Sýrland árið 2012. Þau una hag sínum vel á Akureyri en hann segir bæinn minna sig á heimabæ sinn eins og hann var fyrir 50 árum síðan. Til að mynda er gott að ala börn upp á Akureyri og bæjarbúar taki þeim vel og samfélagið sé gott.

Khatt­ab al-Mohammad á þeim stað þar sem veitingavagninn verður staðsettur …
Khatt­ab al-Mohammad á þeim stað þar sem veitingavagninn verður staðsettur á Akureyri. mbl.is/Gúna

„Fyrir mig og fjölskyldu mína er þetta ekki erfitt þar sem það er svo margt sem minnir okkur á heimaslóðir á árum áður. En það hefur reynst erfitt fyrir ýmsa að aðlagast veðurfarinu. Við erum vön sólríkum sumrum og auðvitað er vetur í Sýrlandi en kannski ekki svona kaldur,“ segir Khattab og hlær þegar hann tekur sopa af heitu kakói á köldum apríldegi á Akureyri. „Eins er veðráttan svo breytileg – þú veist aldrei hvernig veðrið verður eftir tvo tíma.“

Ýmislegt hafi komið þeim á óvart. Til að mynda sé eins og það slokkni á öllu klukkan 18, verslanir loka og allir fara til síns heima. „Við erum vanari meira mannlífi á kvöldin en er hér á Akureyri en þetta er eitthvað sem við erum að venjast. Eins var öll heilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls í Sýrlandi og þar skipti ekki máli hvort þú þurftir að láta búa um beinbrot eða værir í krabbameinsmeðferð – þú þurftir ekki að greiða fyrir þjónustuna. Jafnframt hefur komið okkur á óvart hvað ungmenni komast upp með og hversu lítil virðing er borin fyrir kennurum,“ segir Khattab.

Akureyri
Akureyri mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Að sögn Khattab mætti kenna ungu fólki að bera meiri virðingu og sýna öðrum kurteisi. Ekki síst þeim sem eru að gera allt sitt til þess að gera þá að betri einstaklingum – það er kennurum.

„Ég tek það fram að þetta sem ég segi um það sem betur mætti fara eru mínar persónulegu skoðanir og alls ekki ætlað að móðga eða særa nokkurn. En ef til að mynda mætti leggja meiri áhersla á að kenna stærðfræði og láta krakka glíma við dæmi í stað þess að gefa þeim svörin strax. Því stærðfræði er ekki bara mikilvæg í að kenna fólki að nýta höfuðið þá er hún líka svo skemmtileg,“ segir Khatteb og hlær.

En á móti kemur stendur Ísland Sýrlandi miklu framar þegar kemur að almannatryggingum og löggæslu. „Ekki bara Sýrlandi heldur mörgum vestrænum ríkum,“ segir Khattab.

Hann segir skemmtilegt að upplifa íslenska siði og venjur. Khattab tekur páskana sem dæmi en þeir eru haldnir hátíðlegir í Sýrlandi en kannski í einn eða tvo daga, ekki fimm eins og hér.

Ekki festast í glæstri fortíð

Spurður út í ástandið í Aleppo og Sýrlandi almennt segir Khattab að það megi ekki festast í glæstri fortíð heldur þurfi einnig að hugsa um hvað sýrlenskur almenningur hefur þurft að þola síðustu áratugina undir harðri stjórn Assad-feðganna. Fyrst af hálfu föður Bash­ar al-Assad, nú­ver­andi for­seta Sýr­lands, Hafez al-Assad, sem var for­seti Sýr­lands frá 1971 til árs­ins 2000.

Líkt og fram kom í fyrirlestri Khattab á veg­um Höfða, friðar­set­urs Reykja­vík­ur­borg­ar og Há­skóla Íslands í nóvember var staða almennings slæm og fólk hafði ekkert val um eigið líf. 

„Þrátt fyrir hátt menntunarstig í landinu þá tókst þú ekki sjálfur ákvörðun um eigin framtíð heldur var ákvörðunin bundin við vilja yfirvalda. Þeirra sem höfðu allt til alls á kostnað almennings.Þar liggur rót vandans sem varð til þess að fólk fór út á götur til að mótmæla með friðsamlegum hætti í mars 2011,“ segir Khattab.

AFP

Mótmæli sem enduðu með blóðugu stríði sem nær langt út fyrir mörk borgarastyrjaldar og er miklu frekar staðgöngustríð (proxy war) þar sem ýmis erlend ríki og stórveldi blanda sér í átökin, fyrst og fremst af öðrum pólitískum ástæðum sem hafa lítið sem ekkert með Sýrland að gera.

„Með beinum og óbeinum aðgerðum stuðla þessir erlendu aðilar að því að tryggja efnahagslega hagsmuni og pólitíska stöðu sína í Vestur-Asíu. Þeir lita svo á að Sýrlandsstríðið sé ákveðinn vendipunktur þar sem útkoman gæti endurskilgreint landamæri og valdahlutföll Miðausturlanda.

Staðan í Sýrlandi er orðin vægast sagt mjög flókin. Bandalög og fylkingar eru sífellt að breytast. Hraðinn á þessum breytingum er gífurlegur. Vegna þess hversu eldfimt og ofbeldisfullt ástandið hefur verið, er nánast ómögulegt að fá áreiðanlegar og haldbærar upplýsingar um hvað raunverulega gangi á,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda á Vísindavef Háskóla Íslands.

Khattab segir að þegar Hafez al-Assad tók við völdum í Sýrlandi í byrjun áttunda áratugarins lét hann drepa embættismenn sem ekki voru honum að skapi og ríkti með harðri hendi áratugum saman. Þetta var gert með vilja vestrænna ríkja enda töldu þau að með þessu væru landamærin við Ísrael best tryggð gegn öðrum arabaríkjum í Mið-Austurlöndum. Sýrlenska þjóðin var hrædd og lét kúga sig af Assad og það var í raun ekki fyrr en árið 2011 sem fólk þorði fyrst að setja hnefann í borðið og segja nú er nóg komið af Assad-fjölskyldunni og hennar fylgifiskum á valdastóli. Það sem gerðist síðan þekkjum við öll, segir Khattab en hann segir að hagur almennings hafi versnað mjög þegar sonurinn, Bash­ar al-Assad, komst til valda árið 2000.

frá sjálfsvígsárásinni í Rashidin í gær.
frá sjálfsvígsárásinni í Rashidin í gær. AFP

Að sögn Khattab er misjafn sauður í marglitu fé uppreisnarhópa og þeir engir englar og kannski komnir langt frá hugsjóninni sem var á bak við mótmælin fyrir rúmum sex árum.

„En þegar búið er að sprengja upp húsið þitt og drepa fjölskyldu þína þá er erfitt að svara ekki fyrir sig. Það hafa margir gert með því að ganga til liðs við slíka hópa sem berjast gegn stjórnarhernum,“ segir Khattab.

Að sögn Khattab er hann ekki þar að tala um vígasamtök eins og Ríki íslams og Al-Nusra heldur aðra hópa. „Þér er ýtt út í þetta,“ segir Khattab.

Veltir fyrir sér hvernig Rússar komist upp með þetta

Hann segir að í dag sé stór hluti sýrlenska hersins skipaður erlendum vígamönnum. Félögum í líbönsku hreyfingunni Hezbollah, Íranar, Írakar, Rússar og fleiri sem hafa atvinnu af því að drepa. Voðaverk þeirra eru síðan studd af Rússum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem stöðugt beita neitunarvaldi þegar kemur að ályktunum varðandi stríðið í Sýrlandi. Hann segist stundum velta því fyrir sér hvers vegna Sameinuðu þjóðirnar og helstu ríki heims leyfi þessu að gerast. En við þeirri spurningu á hann engin svör.

Rússar beita alltaf neitunarvaldi í öryggisráðinu þegar greidd eru atkvæði …
Rússar beita alltaf neitunarvaldi í öryggisráðinu þegar greidd eru atkvæði um að grípa til aðgerða gegn Assad forseta Sýrlands. AFP

Í desember komst á samkomulag um að flytja íbúa Austur-Aleppo á brott þegar her einræðisstjórnarinnar náði þeim hluta borgarinnar á sitt vald. Minna hefur farið fyrir fréttum af því hvert fólkið var flutt en fyrst á eftir var talað um að margir þeirra, tugir þúsunda, hafi verið fluttir til Idlib-héraðs en þar hafa geisað bardagar um langt skeið.

Má þar nefna bæinn Khan Sheikhoun þar sem efnavopnaárásin var gerð 4. apríl. Þann dag létust 86 almennir borgarar og hundruð slösuðust. Talið er fullvíst, en það hefur ekki verið staðfest endanlega, að sarín-taugagasi hafi verið beitt í loftárásinni. Eins eru flestir á því að stjórnarherinn hafi verið þar að verki en Assad hefur ekki staðfest það. Enginn efi er hins vegar í huga Khattab sem er í sambandi við fólk sem er í Sýrlandi og hefur upplifað slíkar árásir áður af hálfu einræðisherrans. 

„Sýrland er eitt fárra ríkja sem ekki hafa staðfest sáttmála Sameinuðu þjóðanna um notkun efnavopna frá 1997. Sýrlendingar eru taldir eiga stærsta efnavopnabúr Mið-Austurlanda, þótt ekki sé vitað um nákvæmt magn. Meðal þess sem Sýrlendingar búa yfir er VX taugagas, sinnepsgas og taugagasið sarín sem talið er að hafi verið notað í árásinni 21. ágúst sl. (ATH 2013) Sarín var þróað af nasistum árið 1938 og er það talið um 500 sinnum öflugara en blásýra, sem nasistar notuðu í útrýmingarbúðunum,“ segir í grein sem Sunna Sæmundsdóttir skrifaði á mbl.is árið 2013. 

Frétt mbl.is: Tók áhættu með því að leita til þingsins

Eftir því sem þú lýgur oftar því auðveldara er það

Spurður um hvernig Assad detti í hug að beita efnavopnum þegar vitað er að heimurinn fylgist með þá segir Khattab að þetta sé eins og með aðra sem ljúga. Fyrsta skiptið er erfitt en eftir því sem þú lýgur meira því auðveldara verður það.

Ekki voru hins vegar allir íbúar Austur-Aleppo fluttir til bæja í Idlib og segir Khattab að stór hluti þeirra hafi verið keyrður út í eyðimörkina og skilin þar eftir í búðum þar sem ekkert er í boði, ekkert að borða, engin lyf – ekkert. „Það eina sem þú getur gert er að bíða og vona að Sameinuðu þjóðirnar komi og veiti þér hjálparhönd,“ segir Khattab.

Þetta eru villimenn

Að sögn Khattab eru tengsl á milli stjórnvalda í Sýrlandi og Ríkis íslams þegar kemur að baráttunni gegn almennum borgurum. Vígasamtökin í fyrstu starfað fyrir Assad og þau eigi ekkert sameiginlegt með múslímum.

„Því múslímar eru ekkert öðruvísi en kristnir og gyðingar – friðelskandi fólk sem vill búa í sátt og samlyndi,“ segir Khattab. 

AFP

Þegar Khattab var að alast upp kenndi móðir hans honum undirstöðuatriðin í íslam-trú, atriði eins og þú skalt ekki stela og þú skalt ekki drepa og fleiri atriði sem íslam á sameiginlegt með kristinni trú og gyðingdómi.

„Vígamenn Ríki íslams [ Tekið skal fram að Khattab notar alltaf arabíska heitið yfir vígasamtökin - Daesh, sem út­leggst داعش á ar­ab­ísku, er skamm­stöf­un á al-Dawla al-Islamiya fi al-Iraq wa al-Sham, sem er þýðing úr ar­ab­ísku á الدولة الإسلامية في العراق والشام.] eru glæpamenn líkt og þeir sem hafa framið hryðjuverk í Evrópu undanfarin ár. Ef þeir væru múslímar myndu þeir ekki drepa múslíma en flest fórnarlömb þeirra eru múslímar, saklaust og heiðarlegt fólk. Samkvæmt íslam ferð þú ekki inn á heimili fólks og nauðgar konum og börnum. Þetta er það sem vígamenn gera ekki heiðarlegir múslímar, ekkert frekar en heiðarlegir kristnir menn. Þetta eru villimenn,“ segir Khattab.

Okkur stendur ekki á sama

„Allir bjuggust við því að Assad færi frá völdum og þegar við fórum til Líbanon árið 2012 töldum við að aðeins væri um skamman tíma að ræða. En nú eru komin fimm ár og ekkert sem bendir til þess að við séum á heimleið. Vinir okkar og fjölskylda sem enn eru í Sýrlandi búa við skelfilegar aðstæður, þau svelta og búa við stöðugt óöryggi en við getum ekkert gert.

Til að mynda nágranni minn og vinur sem er á vergangi. Hann er svangur, heimilislaus og hefur misst alla fjölskylduna. Þetta sker í hjartað. Ég er á móti þessu stríði og tek ekki afstöðu með einum eða neinum. Meðal annars þess vegna stóðum við fjölskyldan, með stuðningi góðra vina, fyrir samstöðufundum hér á Ráðhústorginu 14 helgar í röð. Til þess að sýna sýrlensku þjóðinni að okkur stendur ekki á sama,“ segir Khattab. 

Samstöðufundur á Ráðhústorginu með sýrlensku þjóðinni.
Samstöðufundur á Ráðhústorginu með sýrlensku þjóðinni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Líkt og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga er komið á samkomulag um að flytja á brott íbúa frá fjórum bæjum – tveggja í nágrenni Aleppo og tveggja í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus. 

Íbúar bæjanna Foah og Kefraya verða fluttir til svæða sem eru undir stjórn ríkisstjórnarinnar en íbúar Madaya og  Al-Zabadani eru fluttir á svæði uppreisnarmanna í Idlib-héraði.

Í síðasta mánuði lýstu Sameinuðu þjóðirnar skelfilegu ástandi í bæjunum fjórum og sögðust óttast um af­drif 60 þúsund íbúa þeirra en fjöl­marg­ir eru við dauðans dyr vegna skorts á nauðsynj­um.

Ali al-Za'at­ari, sem fer með mannúðar­mál í Sýr­landi fyr­ir hönd Sam­einuðu þjóðanna, sagði ástandið skelfi­legt. 60 þúsund sak­laus­ir borg­ar­ar væru inni­lokaðir í hringiðu of­beld­is og neyðar þar sem vannær­ing og skort­ur á al­menni­legri heil­brigðisþjón­ustu er dag­legt brauð. 

Hann sagði að stór­slys vofði yfir bæj­ar­bú­um ef ekk­ert væri að gert og nauðsyn­legt að veita þeim aðstoð eins fljótt og auðið er eða áður en það verður of seint. Brugðist var við og byrjað að flytja íbúana á brott í liðinni viku en í gær var gerð sjálfsvígsárás á stað þar sem fólk beið eftir rútum sem flytja ætti það á brott frá Foah og Kefraya. Á annað hundrað almennir borgarar létust í árásinni. 

Rúmlega 100 uppreisnarmenn en yfir tvö þúsund almennir borgarar

Khattab segir að þegar verið var að flytja fólk á brott frá Al-Zabadani hafi komið í ljós að aðeins rúmlega 100 uppreisnarmenn voru í bænum en yfir tvö þúsund almennir borgarar sem hafa verið lokaðir inni á fjórða ár í herkví Hezbollah-liða sem eru að berjast fyrir stjórnvöld í Sýrlandi.

AFP

Hann undrast aðgerðarleysi Sameinuðu þjóðanna á þessum svæðum en segir að þetta eigi ekki að koma á óvart. Þegar hann bjó í flóttamannabúðum í Líbanon var maturinn sem kom í búðirnar oft útrunninn og börnin fengu litla sem enga kennslu. Sýrlensk börn sem eru að vaxa úr grasi hefur verið svipt æskunni og möguleikanum á menntun. Það sé ömurlegt að upplifa, bæði sem sex barna faðir og kennari, segir Khattab.

Aleppo kebab Akureyri

Khattab treystir sér ekki aftur í kennslu en hann kenndi ensku í tvo áratugi í heimalandinu. Nú dreymir hann um að setja veitingavagn með sýrlenskum mat á laggirnar á Akureyri. Umsókn hans er í ferli hjá yfirvöldum en ef allt fer að óskum mun Aleppo kebab Akureyri taka á móti fyrstu gestunum í næsta mánuði. Þar ætlar Khattab að bjóða upp á sýrlenskan mat, svo sem kebab, falafel og fleira góðgæti frá heimalandinu. Hann vonast til þess að Akureyringar eigi eftir að taka staðnum vel líkt og þeir hafa gert hvað varðar komu flóttafólks frá Sýrlandi. 

  Greinarflokkur um Sýrland

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert