„Ég er bara nákvæmlega sama stelpan“

Katrín Björk Guðjónsdóttir, 24 ára, var valin Vestfirðingur ársins 2016.
Katrín Björk Guðjónsdóttir, 24 ára, var valin Vestfirðingur ársins 2016. Ljósmynd/aðsend

Í nóvember 2014 fékk Katrín Björk Guðjónsdóttir litla heilablæðingu sem hafði lítil sem engin áhrif á líf hennar. Næstum tveimur vikum síðar fékk hún svo blóðtappa sem tók frá henni allan mátt í hægri hendi. Sjö mánuðum síðar fékk hún stóra heilablæðingu en við það lamaðist allur líkaminn. Katrín Björk er ekki nema 24 ára gömul, búsett á Flateyri og er á batavegi. Í viðtali við mbl.is svarar Katrín spurningum blaðamanns skriflega í gegnum netið, með þeim fimm fingrum sem völd hafa á lyklaborðinu.

„Gleðin var því svo innileg þegar ég fór að geta hreyft vinstri höndina, þá ákvað ég að ég ætlaði að ná hreyfingunni svo vel upp í henni að ég myndi ná að blogga og skrifa reynslu mína niður, svo ári seinna var ég byrjuð að blogga,“ segir Katrín. Hún heldur úti bloggsíðunni katrinbjorkgudjons.com þar sem hún segir frá sínu daglega lífi og áhugamálum og greinir frá árangri sínum í bataferlinu. „Núna þá tekur það mig svona einn og hálfan til tvo daga að skrifa blogg, taka myndir og vinna myndirnar og birta bloggið, fyrir ári síðan tók það mig nokkrar vikur,“ útskýrir Katrín.

Katrín segir það að geta loks andað án allrar aðstoðar hafi verið stærsti sigurinn á bataferlinu. „Öndunarvél og súrefni tilheyra nú bara fortíðinni ásamt krónískri hræðslu minni við súrefnismettunarmæla. Það er næstum fáránlegt að hugsa til baka og sjá hvað tímarnir eru breyttir. Þó að ég gangi hvorki eða tali án hjálpar frá einhverjum öðrum þá líður ekki sá dagur án þess að ég æfi jafnvægis- eða tunguhreyfingar,“ útskýrir Katrín.

Missti aldrei málið

Fyrir henni opnaðist svo nýr heimur þegar talmeinafræðingur færði henni stafrófs- og litaspjald en þá gat hún stafað með augunum. „Svo þegar ég gat notað vinstri hendina þá notaði ég í byrjun sömu aðferð og við augnstöfun en í dag þá er þetta ekkert mál, ég bendi bara á stafina eða segi orðið.“

Ljósmynd/aðsend

Hún kveðst hafa verið heppin að ekki blæddi inn á málstöðina í heilanum og því hefur hún alltaf getað stafað orðin sem hún vill segja. „Þannig að ég hef aldrei misst málið þó að vöðvarnir í talfærunum misstu allan kraft. Ég er svo heppin að ég fæ talþjálfun tvisvar í viku og þar eru stöðugar framfarir.“

Vestfirðingur ársins 2016

Fyrr á árinu var Katrín útnefnd Vestfirðingur ársins þar sem hún var heiðruð fyrir skrif sín á bloggsíðunni. „Mig grunaði aldrei að ég yrði tilnefnd sem Vestfirðingur ársins en þegar ég komst að því þá bara roðnaði ég og hló af geðshræringu,“ segir Katrín.

„Ég var aldrei viss um hvort ég ætti að halda áfram að blogga. Fyrst gat ég bara notað einn fingur á lyklaborðið og ég svitnaði við að reyna að skrifa eitt orð, svo ég var ekki viss hvort ég myndi halda áfram að nenna að blogga því þetta var mér svo mikil áreynsla,“ útskýrir Katrín. Viðurkenningin reyndist henni þó vera hvatning til þess að halda áfram.

„Þá tók ég ákvörðun um að ég myndi halda áfram með þetta blogg, því það er að gefa mér svo miklu meira en nokkur getur ímyndað sér, nú eru fingurnir á lyklaborðinu orðnir fimm, en stærsti sigurinn vannst við að vinna myndirnar af sjálfri mér og þá sættist ég við þetta kraftlitla andlit sem ég ber. Litlu sigrarnir verða svo ótrúlega margir við að gera nákvæmlega það sem maður hefur yndi af,“ segir Katrín.

Áhugamálin öll þau sömu

Hún hefur alltaf haft gaman af því að skrifa og segist alla tíð hafa haft mikla þörf fyrir að tjá sig í rituðu máli. Í gegnum tíðina hafi hún alltaf sótt mikið í að skrifa þó enginn hafi mátt vita af því. „Svo eftir stóru blæðinguna vissi fólk ekki hvernig það átti að koma fram við mig og ég er viss um að bloggið hafi hjálpað þeim,“ útskýrir Katrín.

Spurð hvort áhugamál hennar og áherslur hafi að einhverju leyti breyst eftir heilablæðinguna segir hún svo ekki vera. „Nei, þau eru nákvæmlega þau sömu og þau voru. Mér finnst það oft gleymast og það er gífurlega mikilvægur þáttur í þessu öllu, ég er bara nákvæmlega sama stelpan og ég hef alltaf verið, nýorðin 24 ára og með áhugamál sem sæmir þeim aldri,“ áréttar Katrín. „Helsta áhugamálið mitt og það sem ég geri margoft á dag, það er að eiga yndislegar stundir með mínu nánasta fólki, fullt af brosi, hlátri og væntumþykju.“

„Helsta áhugamálið mitt og það sem ég geri margoft á …
„Helsta áhugamálið mitt og það sem ég geri margoft á dag, það er að eiga yndislegar stundir með mínu nánasta fólki, fullt af brosi, hlátri og væntumþykju.“ Ljósmynd/aðsend

Þá segist hún alla tíð hafa haft mikla þörf og áhuga fyrir því að hreyfa sig, rækta líkama og sál og hugsa vel um sig sjálfa. „Hvort sem það er í æfingum, húðumhirðu eða maturinn sem ég borða, eins hef ég nánast alla mína ævi haft áhuga á tískunni og hverju ég klæðist, tónlist, taka myndir og vinna myndirnar, skrifa, það tekur bara langan tíma eins og er en ég verð fljótari að skrifa með hverjum deginum,“ bætir hún við.

Alltaf stefnt á toppinn

Það tekur tíma, þolinmæði og mikla vinnu og orku að ná bata eftir heilablæðingu en alla virka daga er Katrín ýmist í talþjálfun eða á æfingum milli klukkan 11 og 14 en að því loknu fer hún á skrifstofuna sína og þar sem hún vinnur til klukkan 19 á kvöldin. „Ég er svo heppin með fólkið í kringum mig því hver dagur einkennist af mikilli gleði, hlátri og hamingju hvort sem það er með unnusta mínum, fjölskyldu minni, tengdafjölskyldu eða vinum,“ segir Katrín um sitt hversdagslega líf.

„Ég hef alltaf stefnt á toppinn í hverju sem er, hvar eða hvenær sem það verður, verður bara að koma í ljós,“ segir Katrín, spurð um markmið sitt og drauma. „Ég féll með feikna hraða beinustu leið niður á botninn en núna er ég að reisa mig við og mun klifra á toppinn!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert