Sósíalistaflokkur Íslands er samfélaginu mikilvægur nú sem aldrei fyrr, segir Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi flokksins, þegar hann er spurður hvort það sé réttur tími að stofna stjórnmálaafl af þessum toga í miðri uppsveiflu í þjóðfélaginu og hagvöxtur er kröftugur. Tæplega 1240 höfðu skráð sig í flokkinn þegar mbl.is tók Gunnar Smára tali fyrr í dag en flokkurinn verður stofnaður formlega þann 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins.
„Sósíalisminn varð til við upphaf kapítalismans. Hann var andsvar við óréttlæti kapítalismans. Því meira sem óréttlætið er því kröftugara verður erindi sósíalismans,“ segir Gunnar Smári. Hann kveðst sannfærður um að flokkurinn verði breiðfylking. „Við erum að svara kalli samtímans. Það eru straumhvörf í samfélaginu og það er að renna upp fyrir æ fleirum að það verður ekki lengra gengið á þeirri braut að fela auðvaldinu allt í samfélaginu,“ segir hann.
Tæpur mánuður er liðinn síðan Gunnar tilkynnti um að hann væri að íhuga stofnun sósíalistaflokks á Íslandi. Síðan þá hefur hugmyndin undið upp á sig og opnaði vefsíða flokksins þann 10. apríl sl. þar sem fólki gefst kostur á að skrá sig í flokkinn. „Ég held að það séu ekki fleiri að ganga í annan flokk þessa dagana,“ segir Gunnar Smári um nýskráningarnar.
Spurður hvaða hópur það sé sem er að skrá sig í flokkinn segir Gunnar Smári það mest vera ungt fólk og fólk á miðjum aldri. „Þarna virðast vera fulltrúar allra aldurshópa, nema þeirra allra elstu,“ segir Gunnar Smári og vísar þá til aldurshópsins 68 ára og eldri.
Eins og segir að ofan verður flokkurinn stofnaður á baráttudegi verkalýðsins, á mánudaginn eftir rúma viku. Spurður hvernig staðið verði að stofnun flokksins segir Gunnar að verið sé að leggja loka hönd á dagskrána og það verði líklega kynnt á morgun. „Það tilkynnist líklega á morgun hvar við verðum og með hvaða hætti við tökum þátt í baráttum dagsins,“ segir Gunnar Smári en hann segir flokkinn koma til með að taka virkan þátt í baráttum hvers konar, en ekki bara ræða málin.
Hann á von á því að það fjölgi enn frekar í flokknum fyrir formlega stofnun hans. „Já, það er heil vika til stefnu. Og þegar flokkurinn hefur verið stofnaður býst ég við að fólk haldi áfram að streyma til hans, þegar einhver starfsemi hefst,“ segir Gunnar.
Kosin verður bráðabirgðastjórn flokksins á stofnfundinum, segir Gunnar Smári og verður hlutverk stjórnarinnar m.a. að byggja upp flokkinn og undirbúa einhvers konar flokksþing í haust þar sem stefna flokksins verður mótuð ítarlega á lýðræðislegan máta. Hann segir það ekki hafa komið til umræðu hvort hann komi til með að gegna formennsku í flokknum.