„Það er sérkennilegt að ganga frá sölunni þegar þingið var í páskafríi. Hvað lá á? Af hverju var ekki hægt að taka þessa umræðu upp á þinginu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, um sölu ríkisins á jörð Vífilsstaða til Garðabæjar. Skrifað var undir kaupsamninginn 19. apríl síðastliðinn.
Sigurður Ingi gerir margvíslegar athugasemdir við sölu jarðarinnar úr ríkissjóði. Hann bendir meðal annars á að engin umræða hafi farið fram í þinginu um mögulega staðsetningu fyrir framtíðarsvæði fyrir spítala. „Mér hefði þótt meiri bragur að því að það hefði verið rætt í þinginu og við skipst á skoðunum. Þetta varðar þjóðarhag og þarf ekki að vera flokkspólitískt.“
„Felst í sölunni sá möguleiki að ríkið geti keypt landið aftur á sama kaupverði? Eða þyrfti það mögulega að kaupa jörðina aftur á uppsprengdu verði frá sveitarfélaginu þegar það þyrfti mögulega á landi að halda eins og til dæmis fyrir spítala,“ spyr Sigurður Ingi.
Hann tekur fram að hann sé fylgjandi samvinnu ríkis og sveitarfélaga um yfirráðarrétt á landi en taka þurfi tillit til verðs á því. Í því samhengi segir hann að lágt verð hafi komið honum á óvart. Hann hefur reiknað út að hektarinn hafi verið seldur á 2,5 milljónir í stað 20 milljóna króna sem hann segir „mikinn mun“ en tekur fram að hann hafi ekki rýnt í það út frá gæði lands og byggingarmagns.
„Mér finnst það koma úr hörðustu átt. Ég er sammála því og þykist vita að öll sveitarfélög séu í því að reyna að halda niðri kostnaði við húsnæði. Ég á ekki von á því að Garðabær setji lóðir á útsölu til að halda niðri húsnæðisverði í sveitarfélaginu,“ segir Sigurður Ingi, aðspurður um ummæli fjármálaráðherra, að líklegt sé að ef land er selt á of háu verði komi það fram í háu lóðaverði.