Var sökkt með fallbyssuskothríð

Kaupskipið Porta, systurskip Minden.
Kaupskipið Porta, systurskip Minden. Wikipedia

Þýska kaupskipinu Minden, sem sökk suður af Íslandi í lok september 1939, var endanlega sökkt með fallbyssuskothríð frá breskum herskipum. Þetta kemur fram í bókinni Blood in the Sea: HMS Dunedin and the Enigma Code frá 2004 en höfundur bókarinnar er Stuart Gill sem síðasta haust lét af embætti sendiherra Bretlands á Íslandi.

Frétt mbl.is: Hluti farmsins var í breskri eigu

Talsvert var fjallað um Minden fyrir páska í kjölfar þess að norska rannsóknarskipinu Seabed Constructor var vísað til hafnar í Reykjavík vegna gruns um ólögmæta starfsemi innan íslensku efnahagslögsögunnar. Skipið, sem hafði verið leigt af breskum aðilum, reyndist hér við land í þeim tilgangi að ná verðmætum úr flaki Minden.

Ekki liggur fyrir hver þessi verðmæti kunna að vera en talað hefur verið um verðmæta málma í þeim efnum. Þegar Landhelgisgæslan hafði afskipti af Seabed Constructor var áhöfn þess byrjuð að rífa flak Minden. Hins vegar var henni gert grein fyrir því eftir rannsókn hér á landi að slíkt væri óheimilt án leyfis frá íslenskum stjórnvöldum.

Dunedin var síðar sökkt af þýskum kafbáti

Engar frekari upplýsingar er að finna um farm Minden í bók Gills en bókin fjallar um breska sögu beitiskipsins Dunedin sem kom á vettvang eftir að breska beitiskipið Calypso hafði stöðvað för þýska kaupskipsins frá Brasilíu til Þýskalands. Áhöfn Minden brást við með því að opna botnlokur skipsins í þeim tilgangi að sökkva því.

Breska beitiskipið Dunedin.
Breska beitiskipið Dunedin. Wikipedia

Fyrirmæli höfðu komið frá þýsku stjórnvöldum að þarlend kaupskip sem væru í hafi ættu að sigla í hlutlausa höfn ef þau kæmust ekki heim til Þýskalands. Ef hætta væri á að skipin féllu í óvina hendur ætti að sökkva þeim. Ljóst er að áhöfnin á Minden var því að framfylgja þeim skipunum þegar Calypso hafði stöðvað för skipsins.

Fram kemur í bók Gills að Dunedin hafi komið á vettvang eftir að hafa fengið loftskeyti um að breskt herskip væri að ráðast á þýskt kaupskip á þessum slóðum. Bókina ritaði Gill þar sem faðir hans var einn af þeim 67 sem björguðust eftir að þýski kafbáturinn U-124 sökkti breska herskipinu út af strönd Brasilíu í lok nóvembermánaðar 1941.

Skutu samtals tíu skothrinum á kaupskipið

Minden hafði ekki uppi neinn fána að sögn Gills. Calypso sendi herlið yfir í þýska skipið til þess að hertaka það en þá hafði áhöfn kaupskipsins þegar hafist handa við að sökkva því. Herliðið var því snarlega kallað til baka og Calypso og Dunedin björguðu síðan áhöfn Minden úr sitthvorum björgunarbátnum sem skipverjar höfðu farið í.

Dunedin bjargaði stýrimanninum, sex öðrum Þjóðverjum og um 24 Kínverjum. Hins vegar sökk Minden aðeins að hluta og eftir að bresku herskipin höfðu siglt um svæðið í um hálftíma án þess að þýska kaupskipið sykki endanlega ákvaðu skipherrar herskipanna að grípa til þess ráðs að skjóta á það til þess að ljúka verkinu.

Calypso skaut sjö skothrinum á Minden og Dunedin þremur og sökk það loks í kjölfarið. Skipverjarnir af Minden voru um borð í Dunedin í nokkra daga en þeir voru síðan fluttir til bresku flotastöðvarinnar í Scapa-flóa á Skotlandi. Síðan voru þeir sendir í búðir fyrir stríðsfanga í Kanada þar sem þeir voru á meðan stríðinu stóð.

Breska beitiskipið Calypso.
Breska beitiskipið Calypso. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert