Ástæðan fyrir því að Arturs Jarmoszko var leitað í fjörum við Fossvog var sú að símamöstur í Kópavogi og á Álftanesi námu merki úr síma hans nóttina sem síðast sást til hans. Enginn grunur er um refsivert athæfi í tengslum við hvarf hans. Skýrslur voru teknar af fjölda manns, m.a. meðleigjanda. Leitað var í íbúð hans og gögn úr síma hans og tölvu skoðuð. Engar vísbendingar fundust.
Lögreglan segist hafa notað öll þau verkfæri sem hún hefur yfir að ráða til að leita unga mannsins. Í frétt í Morgunblaðinu í dag er haft eftir frænku Arturs að fjölskylda hans hafi séð sig knúna til að leita til einkaspæjara í Póllandi vegna vinnubragða íslensku lögreglunnar. Spæjarinn, sem heitir Krzysztof Rutkowski og er kallaður Rambó, er þekktur í heimalandinu og hefur m.a. komið að því að lauma níu ára gamalli pólskri stúlku, sem var í umsjá norskra barnaverndaryfirvalda, til fjölskyldu hennar í Póllandi.
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi, sem leitt hefur rannsókn málsins, segist ekki vita hvað fjölskyldan eigi við með gagnrýni sinni. Hann segir að lögreglan hafi gert allt sem í hennar valdi stendur til að upplýsa málið. Hún hefur við rannsóknina notið aðstoðar björgunarsveita, Landhelgisgæslunnar og sérsveitar Ríkislögreglustjóra svo dæmi séu tekin. Allt hafi „gjörsamlega“ verið gert til að reyna að finna Artur, eins og Guðmundur orðar það.
Eftir að lögreglu barst tilkynning um að Arturs væri saknað, rúmlega viku eftir að hann hvarf, aflaði hún efnis úr öllum þeim eftirlitsmyndavélum sem hún taldi vera að finna á ákveðnu svæði. Artur hafði tekið út peninga í hraðbanka í miðbænum að kvöldi 28. febrúar en eins og áður hefur komið fram var upphæðin óveruleg og hefði t.d. engan veginn dugað fyrir flugmiða.
Artur sást síðast á myndavélum við Suðurgötu í Reykjavík aðfaranótt 1. mars. Hann var þá á suðurleið. Áður hafði hann sést á myndavélum í Lækjargötu. Þegar lögreglan skoðaði svo gögn úr síma hans kom í ljós að möstur á Álftanesi og í Kópavogi höfðu numið merki frá honum þessa nótt. Síðan þá hefur engin virkni verið í síma hans.
Guðmundur Páll segir að engar vísbendingar hafi fundist um fyrirhugaðar ferðir Arturs, hvorki í tölvu hans né síma. „Hann er bara horfinn,“ segir Guðmundur aðspurður um hvort eitthvað hafi fundist sem bendi til hvort hann sé lífs eða liðinn.
Guðmundur ítrekar að ekkert bendi til þess að eitthvað refsivert hafi átt sér stað.
Artur hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár. Hann var í vinnu hér á landi en hafði tekið sér frí eða hætt í henni nokkru áður en hann hvarf. Því hafði vinnuveitandinn ekki saknað hans, að því er fram kom í viðtali við frænku hans, sem einnig er búsett á Íslandi, eftir að leitin að honum hófst. Hún sagði einnig að Artur hefði ekki verið í daglegu sambandi við fjölskyldu sína og því hafi hún heldur ekki strax haft áhyggjur þó að ekki næðist í hann.
Artur leigði íbúð og var meðleigjandi hans m.a. tekinn í skýrslutöku hjá lögreglu eftir hvarfið. Guðmundur segir meðleigjandann hafa verið mjög samvinnuþýðan. Tölva hans og sími hafi verið skoðuð og leit gerð í íbúð þeirra. Ekkert hafi fundist við þá leit sem gat varpað ljósi á hvarfið.
Guðmundur Páll segir vissulega óvenjulegt að erlendur einkaspæjari sé fenginn til að rannsaka mál hér á landi. Spurður hvort að spæjarinn muni leita til lögreglunnar segir Guðmundur að hann muni gera sjálfstæða rannsókn á málinu. Hann segir aðkomu spæjarans hið besta mál. „Vonandi kemur eitthvað út úr því, en ég á því miður síður von á því,“ segir Guðmundur.
Þó að leit að Arturi hafi verið formlega hætt verður aftur farið til leitar komi fram nýjar vísbendingar, að sögn Guðmundar. Mannhvarfsmál séu svo alltaf opin og áfram til rannsóknar í að minnsta kosti þrjú ár eftir að þau koma upp.