Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands um að beita útgerðafélagið Samherja 15 milljóna króna stjórnvaldssekt. Þarf Seðlabankinn jafnframt að greiða Samherja 4 milljónir í málskostnað. Málið á upphaf sitt að rekja til rannsóknar Seðlabankans á meintum brotum Samherja á lögum um gjaldeyri.
Seðlabankinn gerði fyrst húsleit hjá Samherja í mars árið 2012. Í framhaldi sendi bankinn kæru til embættis sérstaks saksóknara um brot Samherja. Saksóknari svaraði því til að í lögum um gjaldeyrismál væri ekki kveðið á um refsiábyrgð lögaðila vegna brota á slíkum lögum. Stuttu síðar sendi bankinn á ný kæru til saksóknara, en kærunni var nú beint gegn fjórum nafngreindum einstaklingum, meðal annars Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja.
Aftur endursendi saksóknari málið. Núna vegna þess að gjaldeyrislögin hafi verið haldin þeim annmarka að hafa ekki hlotið lögáskilið samþykki ráðherra og því væru ekki gildar refsiheimildir.
Óskaði Samherji í framhaldinu eftir upplýsingum um stjórnsýslumál hjá bankanum sem væru til skoðunar. Var meðal annars óskað upplýsinga um hvort rannsókn á þætti Samherja, vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál, væri endanlega lokið í málunum, hvort rannsókn á þætti fyrirtækisins væri enn í gangi hjá stefnda eða hvort Seðlabankinn myndi mögulega taka Samherja til frekari rannsóknar að virtri niðurstöðu embættis sérstaks saksóknara í máli einstaklinganna.
Seðlabankinn svaraði því til að ekkert mál væri til meðferðar hjá bankanum vegna Samherja. Síðar upplýsti hann hins vegar að eftir stæðu í málinu áætluð brot Samherja gegn skilaskyldu erlends gjaldeyris frá því í október 2009 til 2012, en fyrra málið hafði varðað skilaskyldu fram til október 2009.
Bauð Seðlabankinn Samherja að ljúka málinu með 8,5 milljóna sáttagreiðslu. Samherji neitaði því og lagði því Seðlabankinn 15 milljóna stjórnvaldssekt á fyrirtækið.
Í dómi héraðsdóms í dag kemur fram að vegna fyrra bréf bankans þar sem tekið var fram að ekkert mál væri til rannsóknar hefði Seðlabankinn ekki getað sýnt fram á ástæðu fyrir að taka upp málið að nýju. Er því stjórnvaldssektin felld niður.