Heimild þarf í settum lögum til að ríkið megi selja fasteignir sínar. Heimild í fjárlögum dugar þar ekki til. Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari.
Í samtali við mbl.is bendir Jón Steinar á að um langa tíð hafi verið talið að almenn lög þurfi til að veita ríkinu heimild til að selja fasteignir. Fjárlög geti það ekki, enda séu þau af allt öðrum toga.
Vakið hefur umræðu í samfélaginu og á þingi sala ríkisins á jörð Vífilsstaða til Garðabæjar, en skrifað var undir kaupsamninginn 19. apríl síðastliðinn. Heimild til sölunnar var gefin með einni setningu í fjárlögum.
Í 40. grein íslensku stjórnarskrárinnar segir að ekki megi „selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“
Aldrei hefur þó beinlínis reynt á þennan hluta lagaákvæðisins fyrir dómi. Í íslensku réttarfari er gerð krafa um að málshöfðandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls síns og því gæti almennum borgara reynst torvelt að fara með sölu ríkiseigna fyrir dómstóla.
Jón Steinar hefur áður fjallað um þetta skilyrði stjórnarskrárinnar, þá vegna sölu ríkisins á landi við Reykjavíkurflugvöll til Reykjavíkurborgar.
Segir í grein hans, frá 24. ágúst á síðasta ári:
„Til afhendingar á fasteignum ríkisins þarf heimild í almennum lögum. Þessi skilningur styðst við óumdeilda skoðun fræðimanna í lögfræði. Þannig segir til dæmis á bls. 328 í ritinu Stjórnskipun Íslands, 2. útgáfu, 1999, þar sem rætt er um fjárlög og tengsl þeirra við almenn lög: „ ... er óumdeilt meðal fræðimanna að áskilnaður í stjórnarskrá um lög feli í sér að ekki megi taka slíka ákvörðun með fjárlögum“.
Það skiptir því engu máli hvort einhvern tíma hafi verið gert ráð fyrir þessari sölu ríkisins á spildunni við Skerjafjörð í fjárlögum. Sé þessi sala ekki heimiluð í almennum lögum er hún óheimil.“