Vegagerðin mun gera úttekt á umferðaröryggi á Grindavíkurvegi í næstu viku. Einnig er verið að skoða hver kostnaðurinn yrði við endurbætur á veginum.
Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Hann segist ekki vita hve lengi úttektin mun standa yfir en segir að henni muni ljúka í sömu viku.
Grindvíkingar hafa lagt mikla áherslu á að vegurinn verði lagfærður og kom sú krafa upp eftir tvö banaslys sem þar urðu með skömmu millibili.
Vegagerðin hefur unnið að greiningu á veginum að ósk innanríkisráðuneytisins.
Hjá Vegagerðinni hafa verið teknar frá 20 milljónir króna vegna fyrstu framkvæmda í umhverfi Grindarvíkurvegar, sem farið verður í þegar niðurstöður væntanlegrar úttektar liggja fyrir.
Grindavíkurvegur er ekki á samgönguáætlun en í áætluninni er svigrúm til að fara fljótt í framkvæmdir á vegum sem mikið álag er á vegna ferðamannastraums.