Íslensk reynsla nýtist í Úganda

Matthías, Elín og Jóhann rétt fyrir brottför.
Matthías, Elín og Jóhann rétt fyrir brottför. Ljósmynd/Rauði kross Íslands

Þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi fóru til Úganda í gær; sálfræðingarnir Jóhann Thoroddsen, Elín Jónsdóttir og Matthías Matthíasson. Þau munu þjálfa sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins í Úganda í sálrænum stuðningi og að bregðast við áföllum vegna mikils fjölda flóttamanna sem leitað hefur skjóls í landinu undanfarna mánuði.

Flóttafólk frá Suður-Súdan auk annarra landa hefur streymt til Úganda vegna átaka og fæðuskorts og hafa flóttamannabúðir verið opnaðar á nokkrum stöðum Yumbe-héraði, m.a. í Bidibidi þar sem sendifulltrúarnir verða einnig við störf, segir í fréttatilkynningu vegna málsins.

 Sendifulltrúunum er ætlað að leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum við að styðja við fórnarlömb og þolendur og takast á við erfiðar aðstæður í kjölfar flóttans og svo nýrra aðstæðna.

„Mikil þekking er á neyðarviðbrögðum á Íslandi þegar skyndilegar aðstæður koma upp líkt og í náttúruhamförum,“ er haft eftir Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, í fréttatilkynningu. „Aðstæðurnar í Úganda eru erfiðar, mikill skortur er á vatni og öðrum nauðþurftum og fólk hefur flúið átök og ofbeldi sem enginn á að þurfa að upplifa. Rauði krossinn á Íslandi getur miðlað reynslu sinni af því að aðstoða fólk á flótta við að vinna úr áföllum og hefur gert það áður. Ég veit fyrir víst að sú þekking og fræðsla sem okkar fólk skilur eftir munu nýtast sjálfboðaliðum og starfsfólki Rauða krossins í Úganda vel.“

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Rauða krossinn í Úganda við að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila. Eitt af því sem Rauði krossinn gerir er að framleiða gríðarlegt magn af drykkjarvatni fyrir flóttafólkið í búðunum m.a. með því að dæla því upp úr ánni Níl.

Jóhann og Elín eru þaulreyndir sendifulltrúar á vegum Rauða krossins en Matthías heldur nú í sína fyrstu ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert