Uppsöfnuð þörf 60 milljarðar króna

Uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegakerfinu nemur um 60 milljörðum króna.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegakerfinu nemur um 60 milljörðum króna. mbl.is/Styrmir Kári

Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna niðurskurðar undanfarinnar ára vegna viðhalds vegakerfisins er metin um 60 milljarðar króna af Vegagerðinni. Þetta kemur í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Viktors Orra Valgarðssonar, þingmanns Pírata.

Árleg hefðbundin viðhaldsþörf vegakerfisins miðað við eðlilegt ástand er að mati Vegagerðarinnar um 9,5 milljarðar króna.

Ef koma á vegakerfinu í æskilegt ástand á fimm árum þarf því um 15 til 16 milljarða króna á ári þegar horft er til hefðbundinnar árlegrar viðhaldsþarfar ásamt uppsafnaðri þörf vegna ónógs viðhalds.

Ef koma á vegakerfinu í æskilegt ástand á 10 árum þarf því um 12 til 13 milljarða króna á ári miðað við sömu forsendur.

Vinna við malbikunarframkvæmdir. Uppsöfnuð þörf vegna bundins slitlags er metin …
Vinna við malbikunarframkvæmdir. Uppsöfnuð þörf vegna bundins slitlags er metin 11,3 milljarðar króna. mbl.is/Styrmir Kári

Uppsöfnuð þörf vegna of lítils viðhalds bundins slitlags er metin 11,3 milljarðar króna, samkvæmt Vegagerðinni. Miðað við eðlilegt ástand er árleg þörf á viðhaldi 2,8 milljarðar króna á ári.

Gróft mat vegna uppsafnaðrar þarfar á viðhaldi malarvega er metið um tveir milljarðar króna en miðað við eðlilegt ástand er árleg þörf metin á um 1,3 milljarða króna á ári.

Brúin yfir Hornafjarðarfljót er ein margra einbreiðra brúa á Suðurlandi.
Brúin yfir Hornafjarðarfljót er ein margra einbreiðra brúa á Suðurlandi. mbl.is/Rax

55% einbreiðra brúa eldri en 50 ára

Hvað brýr og varnargarða varðar eru 35% allra brúa eldri en 50 ára, þar af eru um 55% einbreiðra brúa eldri en 50 ára. Í þjóðvegakerfinu eru 1.225 brýr, þar af 712 einbreiðar. Í svarinu kemur fram að mikil þörf sé fyrir endurnýjun í þessum lið. Þar segir að endurstofnverð núverandi brúa sé 71,6 milljarðar króna og er eðlileg viðhaldsþörf metin 2% sem er um 1,4 milljarðar króna á ári.

„Fjárveitingar undanfarin ár hafa verið langt undir þessu marki. Uppsafnaður vandi er því mikill sem verður vonandi bættur með nýframkvæmdum,“ segir í svarinu.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Varðandi úrbætur til umferðaröryggis segir í svarinu að þörfin sé mjög mikil. Undanfarið hafa farið um 300 til 400 milljónir króna á ári í þennan lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert