„Hún virtist ekkert ætla að stoppa“

Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í dag.
Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Víkurfréttir

„Við erum enn í flugvélinni og erum bara að bíða eftir því að verða sótt. Miðað við það sem okkur var sagt hérna áðan,“ segir Guðmundur Pálmason í samtali við mbl.is en hann er einn af farþegum flugvélar Primera Air sem lenti utan flugbrautar í lendingu á Keflavíkurflugvelli skömmu eftir klukkan fimm. Farþegarnir hafa beðið í vélinni í rúman klukkutíma en vélin var að koma frá Alicante á Spáni.

Frétt mbl.is: „Ég sit bara hérna og nötra“

„Flugvélin kom inn til aðflugs og reif sig síðan upp aftur og kom svo inn í seinna skiptið og þá gerðist þetta,“ segir Guðmundur. „Hraðinn var rosalegur og hún virtist ekkert ætla að stoppa. Síðan náði hún að stöðva í lokin og rann út af brautinni.“ Spurður hvort skelfing hafi gripið um sig segir hann að það hafi eðlilegt gert það í fyrstu en fólk hafi síðan jafnað sig.

„Það var auðvitað fyrst smá paník en ekkert þannig að fólk gengi af göflunum. Flugstjórinn kom síðan mjög fljótt og lét vita hvað hefði gerst og hefur síðan upplýst okkur reglulega síðan þannig að það er allt í góðu,“ segir Guðmundur ennfremur. Upplýsingaflæðið hafi því verið í ágætu lagi. „Ég upplifi allavega ekki annað.“ Engin slys hafi orðið á farþegum.

„Maður hefði pottþétt vitað af því ef einhver hefði slasast. En þetta var ekki þannig lending. Fyrst við náðum að stoppa áður en við fórum út í einhverja móa,“ segir hann. Hann telur aðspurður líklegt að hálka hafi spilað inni. „Án þess að ég sé einhver sérfræðingur. Þetta verður væntanlega rannsakað. En hún virtist ekkert vera að ná að hemla eðlilega.“

Hvað gerðist?

Um kl. 17:20 í dag rann flugvél frá flugfélaginu Primera Air út af brautarenda brautar 19 í lendingu á Keflavíkurflugvelli. Engin slys urðu á fólki og litlar skemmdir á flugvélinni sjálfri.

Ekki er ljóst hvað olli þessu óhappi en rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú atvikið, segir í fréttatilkynningu frá Isavia sem barst mbl.is í gærkvöldi.

Vegna óhappsins voru engin flugtök eða lendingar á meðan verið var hleypa farþegum frá borði og unnið var að því að fjarlægja vélina sjálfa af brautarenda. Vegna malbikunarframkvæmda er hin brautin á flugvellinum, braut 10/28 lokuð. Þær flugvélar sem áætluðu að lenda á Keflavíkurflugvelli strax eftir atvikið ákváðu að lenda annarsstaðar, tvær fóru til Skotlands og ein lenti í Reykjavík. Flugvélar og farþegar sem áttu að fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli eftir óhappið urðu fyrir töfum. Allir farþegar flugvélarinnar sem lenti í óphappinu voru fluttir frá borði og í flugstöðina rúmlega klukkustund eftir atvikið og var þeim boðin áfallahjálp af Rauða krossi Íslands.

Strax var undirbúin tímabundin opnun á braut 10/28 og hefur hún nú verið opnuð fyrir flugtök og hafa nú allar lagt af stað á sinn áfangastað. Þá hefur vélin verið fjarlægð af brautarenda flugbrautar 01/19 og innan skamms verður unnt að opna flugbrautina aftur.

Við þessa röskun hafa orðið tafir á flugi og eins hefur flugum verið aflýst. Farþegar eru vinsamlega beðnir að hafa samband við flugfélag sitt varðandi nánari upplýsingar.

Allir farþegar sem voru í flugvél Primera Air sem lenti í óhappinu eiga að hafa fengið viðeigandi aðstoð og upplýsingar, segir í tilkynningu Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka