„Allir brugðust hárrétt við“

Snjókoma var á Keflavíkurflugvelli í gær er óhappið varð. Vélin …
Snjókoma var á Keflavíkurflugvelli í gær er óhappið varð. Vélin var að koma frá Alicante á Spáni. Ljósmynd/Víkurfréttir

Engar skemmdir urðu á farþegaþotu Primera Air sem hafnaði utan flugbrautar á Keflavíkurflugvelli í gær. Til öryggis var skipt um eitt dekk en vélin er nú „útskrifuð“ eins og forstjóri fyrirtækisins orðar það í samtali við mbl.is. Hann segir ekkert benda til þess að bilun í vélinni hafi valdið slysinu. Veðurskilyrði hafi verið slæm og væntanlega hálka. Rannsóknarnefnd samgönguslysa fari með rannsókn óhappins og ekki sé hægt að fullyrða um hvað olli því fyrr en að niðurstaða hennar liggi fyrir.

„Sem betur fer slasaðist enginn að því ég best veit, hvorki áhöfn né farþegar,“ segir Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air, um óhappið í gær. Hann segir nokkra farþega hafa þegið áfallahjálp sem Rauði krossinn bauð upp á. Áhöfninni hafi einnig verið boðin áfallahjálp. Hann segir skiljanlegt að farþegum hafi verið brugðið. „Þetta hefur væntanlega verið óþægileg tilfinning. En áhöfn okkar brást rétt og vel við samkvæmt sinni þjálfun og reynslu,“ segir Hrafn. Hann segist ekki hafa heyrt annað en að upplýsingastreymi til farþega hafi verið gott og þeir sáttir hvað það varðar. 

Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air.
Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air.

Neyðarviðbrögð góð

Þá segir hann neyðarviðbrögð á Keflavíkurflugvelli hafa verið mjög góð. „Allir brugðust hárrétt við í samræmi við þjálfun og undirbúning,“ segir Hrafn. 

Auk rannsóknar rannsóknarnefndar samgönguslysa mun Primera Air einnig gera eigin rannsókn á atvikinu. „Það er ekkert sem bendir til þess að vélin hafi verið í ólagi,“ segir hann. 

Hann segir atvikið ekki hafa haft áhrif á flugáætlun Primera Air. Önnur vél hafi verið fengin frá Danmörku sem flogið hafi til Spánar í dag. „Það varð smávægileg seinkun á vél frá Danmörku en sem betur fer hefur þetta ekki haft nein áhrif á annað flug okkar.“

Hrafn vill koma á framfæri þökkum til allra sem stóðu að neyðarviðbrögðum í kjölfar atviksins í gær. „Allir stóðu sig með sóma og ég og mitt fólk erum mjög þakklát og ánægð með öll samskiptin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka