Ferðaþjónustan veðjar á Kársnes

Hluti af fyrirhugaðri uppbyggingu á Kársnesi.
Hluti af fyrirhugaðri uppbyggingu á Kársnesi.

Hönnun nýrrar brúar yfir Fossvog gæti hafist á næsta ári ef áætlanir ganga eftir. Brúin mun tengja saman Kópavog og Reykjavík. Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogs, reiknar með því að í sumar verði hafist handa við að kynna breytingu á skipulagi beggja sveitarfélaga svo brúin geti orðið að veruleika.

„Samhliða skipulagsvinnunni verður unnið umhverfismat vegna þessara áætlana og búnir til ákveðnir hönnunarskilmálar fyrir mannvirkið, sem brúin vissulega verður. Ef ég man rétt yrði þetta ein lengsta göngu- og hjólatenging milli sveitarfélaga í norðanverðri Evrópu, eða allt að 270 metrar,“ segir hann.

„Stefnt er að því að almenningsvagnar aki yfir brúna ásamt gangandi og hjólandi umferð. Helst vildi ég hafa þetta þannig að almenningsvagninn væri á aðskildri akbraut. Hún þyrfti ekki að vera tvíbreið fyrir vagninn heldur þyrfti aðeins að vera lína yfir fyrir vagninn. Vegna flugbrautarinnar getur brúin aldrei verið falleg bogabrú eins og við sjáum víða erlendis. Við erum bundin af ákveðinni hæð.“

Birgir Hlynur segir að fyrir 2-3 árum hafi verið áætlað að kostnaður við brúna yrði 1,2 til 1,3 milljarðar.

Hér má sjá áformaða brú yfir Fossvog og brýr yfir …
Hér má sjá áformaða brú yfir Fossvog og brýr yfir fyrirhugaðar bíllausar eyjar. Teikning/Spot on Kársnes

Samtals 1.200 íbúðir

Kársnesið mun taka stakkaskiptum á næstu árum. Fyrirhugað er að byggja samtals um 1.200 íbúðir í bryggjuhverfi við Fossvog og á nokkrum reitum á Kársnesi í nágrenni gamla hafnarsvæðisins. Þá er áformað að byggja tugi þúsunda fermetra af atvinnuhúsnæði. Raunar er þegar búið að byggja, eða byrjað að byggja, um þriðjung íbúða í nýja bryggjuhverfinu við Naustavör.

Birgir Hlynur segir verkefnið eiga sér langan aðdraganda. Í byrjun aldarinnar hafi verið hugmyndir um hafskipahöfn í Kársnesi. Meðal annars vegna mótmæla íbúa hafi þær hugmyndir verið settar til hliðar og lagt upp með blandaða byggð af íbúðum og atvinnuhúsnæði.

Hann segir fyrirhugaða brú yfir Fossvog lykilatriði í uppbyggingu á hafnarsvæði Kársness. Brúin muni stórbæta samgöngur og mynda nýjan samgönguás um Bakkabraut og norður til miðborgar Reykjavíkur.

Árið 2015 var þróunarsvæðið á Kársnesi valið til þátttöku í norrænni nýsköpunarsamkeppni. Greint var frá vinningstillögunni í júní í fyrrasumar. Hún heitir Spot On Kársnes og er vinningstillagan höfð til hliðsjónar við gerð deiliskipulags á hafnarsvæðinu. Það hefur verið í mótun.

Á miðri mynd er búið að teikna drög að menningarhúsum …
Á miðri mynd er búið að teikna drög að menningarhúsum við sjóinn. Teikning/Skipulagsyfirvöld í Kópavogi

Menningarhús í skoðun

Birgir Hlynur segir hugmyndir hafa komið fram um náttúrugripasafn á Kársnesi. Til skoðunar sé að byggja hús fyrir menningarstofnun.

Fram hefur komið að flugfélagið WOW Air hefur fengið úthlutaðar lóðir undir nýjar höfuðstöðvar á Vesturvör 38a og 38b. Samkvæmt tillögu að breyttu deiliskipulagi er lóðin Vesturvör 38a stækkuð úr 5.000 fermetrum í 8.900 fermetra og byggingarmagnið aukið úr 3.000 fermetrum í 12.000 fermetra. Þá er byggingarreitur færður til norðurs. Gert er ráð fyrir 6.800 fermetra niðurgrafinni bílageymslu og verða þar 200 af 240 bílastæðum á lóðinni. Þá er gert ráð fyrir samskonar breytingum á lóðinni Vesturvör 38b og verður byggingarmagn þar líka 12.000 fermetrar. Hámarks mænishæð bygginga í Vesturvör 38b verður 27 metrar en 15 metrar í Vesturvör 38a.

Að sögn Birgis Hlyns áformar WOW Air að byggja höfuðstöðvar og hótel á svæðinu. Vestast á athafnasvæði Kársness eru jafnframt uppi hugmyndir um ferðatengda þjónustu og svokallað baðlaugasvæði í náttúrulegri umgjörð, með búningsaðstöðu ásamt þjónustubyggingum, veitingaaðstöðu og íþróttamiðstöð. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru þar hugmyndir um „Spa hótel“.

Fyrirhugað er að reisa fjölda glæsilegra íbúða við sjóinn.
Fyrirhugað er að reisa fjölda glæsilegra íbúða við sjóinn. Teikning/Björn Skaptason/Atelier arkitektar

Dregið úr umferðarhraða

Birgir Hlynur segir að gripið verði til margvíslegra mótvægisaðgerða vegna aukinnar byggðar vestast á Kársnesi. Umferðarhraða verði haldið innan marka og almenningssamgöngur efldar. Markmiðið sé að hvetja fólk til að breyta ferðavenjum sínum þannig að það dragi úr vægi einkabílsins í ferðamynstri sínu og nýti sér bættar almenningssamgöngur á svæðinu. Hugmyndir séu uppi um að breyta götumynd Kársnesbrautar, Kópavogsbrautar og Vesturvarar, með því að akreinar verða mjókkaðar og gangstéttar breikkaðar. Slíkt dragi úr ökuhraða og liðki til fyrir gangandi og hjólandi umferð. Fleiri aðgerðir séu í undirbúningi og til skoðunar.

Samkvæmt vinningstillögunni, Spot on Kársnes, yrði sundlaug á miðri brúnni yfir Fossvog. Birgir Hlynur segir að nú sé ekki gengið út frá því að hafa þar sundlaug. Hugmyndin sé þó spennandi.

Hann segir hugmyndir vinningstillögunnar um tvær bíllausar eyjar, sem tengja myndu Kársnesið og Bessastaðanes allrar athygli verðar. „Þær gætu orðið hluti af mikilli samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi og jafnvel almenningsvagna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert