Rannsókn mun taka daga eða vikur

Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í gær.
Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í gær. mbl.is/Víkurfréttir

Niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa á því hvers vegna farþegavél Primera Air hafnaði utan flugbrautar eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli í gær mun taka einhverja daga eða vikur. Þetta segir Þorkell Ágústsson, rekstrarstjóri hjá nefndinni.

Hér má sjá staðsetningu vélar Primera Air fyrir utan flugbrautina …
Hér má sjá staðsetningu vélar Primera Air fyrir utan flugbrautina eftir óhappið í gær. Vélin rann út fyrir enda brautarinnar. Skjáskot/Flightradar24

Í gær fór sérfræðingur frá flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa á vettvang og lauk sinni vinnu seint í gærkvöldi. Þorkell segir að auk þess að skoða vettvang og nánasta umhverfi, vélina sjálfa, flugrita og fleira séu teknar skýrslur af áhöfninni. „Við rannsökum alla mögulega þætti,“ segir Þorkell. 

Hann vill ekki segja til um hvort færð á flugbrautinni hafi valdið óhappinu. Slíkt sé ótímabært. Það muni rannsókn nefndarinnar verða að leiða í ljós. Í gær var hálka víða um land.

Seinkanir á flugi vegna óhappsins

Flugbrautum á Keflavíkurflugvelli var lokað í kjölfar atviksins. Þær voru opnaðar aftur í gærkvöldi. Enn er þó einhver seinkun á flugi eins og sjá má hér.

Farþegum vélarinnar var að vonum brugðið er vélin hóf að renna eftir flugbrautinni. Lýstu þeir því þannig að svo virtist sem hún væri ekki að bremsa, svo hratt fór hún. Vélin hafnaði svo utan flugbrautarinnar við enda hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka