„Það er enginn vafi á því að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í friði fyrir pólitískri þröngsýni hægri aflanna væru um 20 þúsund íbúðir í þessu kerfi í dag og aðstæður bæði tekjulægri fjölskyldna og ungs fólks allt aðrar og betri,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í 1. maí ávarpi sínu.
Ávarp Gylfa snýst fyrst og fremst um húsnæðisvandann en hann segir verkalýðshreyfinguna ávallt hafa litið svo á að húsnæðisöryggi væru sjálfsögð mannréttindi. Nú, árið 2017, stæði hún frammi fyrir gamalkunnri áskorun.
„Húsnæðismálin voru eitt fyrsta stefið í kröfugerð verkafólks fyrir 100 árum þegar heilsuspillandi húsnæði og gríðarlegur húsnæðisskortur þrengdu að möguleikum alþýðunnar til betra lífs. Verkalýðshreyfingunni tókst í samstarfi við bandamenn sína á Alþingi að ná góðum árangri í þessum málaflokki á ýmsum skeiðum á síðustu öld,“ segir Gylfi.
Í ávarpinu rekur hann sögu hinna opinberu húsnæðiskerfa en hann segir að horft hafi til verri vegar eftir að stjórnvöld tóku „þá upplýstu ákvörðun að eyðileggja verkamannabústaðakerfið og leggja af hönnunar- og teiknideildina.“
„Ætla má að ríflega 13 þúsund íbúðir hafi verið í verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt af og þeim sem þar bjuggu gefinn kostur á að kaupa íbúðirnar með láni á markaðskjörum. Þegar í byrjun lenti þorri kaupenda í vanda með greiðslubyrði þessara lána – þrátt fyrir að hafa fengið að eignast verulegan eignarhlut – og kannanir Hagstofu Íslands sýna að greiðsluvandi þessa hóps hófst þegar árið 2004 en ekki í kjölfar hrunsins,“ segir Gylfi.
Hann segir ástandið grafalvarlegt og það muni ekki lagast nema ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.
„Nú þarf að hefjast handa ekki seinna en strax til að félagsmenn okkar komist út úr þeim ógöngum sem stjórnvöld hafa att þeim út í í húsnæðismálum. Við viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.“