Á Íslandi búa 50 manns sem hafa 80.000 krónur eða minna til framfærslu á mánuði og fjöldi landsmanna þarf að velja dag hvern á milli hversdagslegra og lífsnauðsynlegra vara, vegna þess að framfærsla þeirra hrekkur ekki til. Þetta kom fram í 1. maí ávarpi Ellenar Calmon, formanns Öryrkjabandalagsins.
Greint hafði verið frá því fyrr í dag að Ellen héldi ræðu sína á stofnfundi Sósíalistaflokksins nú síðdegis, en samkvæmt fréttatilkynningu frá ÖBÍ hélt hún ræðu sína á Austurvelli, þar sem þeir sem ósáttir eru við núverandi verkalýðsforystu héldu kröfufund.
Nefndi Ellen í ræðu sinni að dæmi væru um að fólk þurfi að velja á milli þess að kaupa sér pensilín eða fara í sund með börnin.
Um 9% þjóðarinnar, eða um 29.000 manns, tilheyri Öryrkjabandalaginu í gegnum aðildarfélög þess og sá hópur tilheyri öllum mögulegum stjórnmálaflokkum og hreyfingum.
Barátta þessa fólks sé fyrir réttlátara og aðgengilegra samfélag fyrir alla. „Í dag göngum við undir kjörorðunum Lúxus eða lífsnauðsyn – fátækt útilokar fólk frá samfélaginu,“ sagði í ræðu Ellenar sem mbl.is fékk senda fyrir flutninginn.
„Við vekjum athygli á því að fjöldi Íslendinga þarf að velja á milli hversdagslegrar og jafnvel lífsnauðsynlegrar vöru á degi hverjum, vegna þess að framfærsla þeirra dugar ekki fyrir öllu því sem til þarf að lifa mannsæmandi lífi. Dæmi eru um að fólk þurfi að velja á milli þess að kaupa sér pensilín eða fara í sund með börnin.“
Oft sé búið að benda stjórnvöldum á að hægt sé að bæta kjör þessa hóps með einfaldri breytingu í reglugerðaákvæði, en á þær ábendingar hafi ekki verið hlustað.
„UNICEF gaf út skýrslu í fyrra sem sýndi að yfir 6.100 börn á Íslandi búa við fátækt og eru það m.a. börn örorkulífeyrisþega. Við höfum margoft bent stjórnvöldum á hversu mikið börnin gjalda fyrir fátækt foreldranna.“ Á slíkt hafi heldur ekki verið hlustað.
„Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu – útilokar börn frá þátttöku, treystir þau í slæmri félagslegri stöðu sem getur gert það að verkum að þau eiga erfitt uppdráttar, jafnvel einnig á fullorðinsárum.
Ef fólki er haldið í fátækt er næsta víst að það tekur ekki þátt og á bágt með að gefa af sér. Samfélagið nýtur því ekki góðs af þeirra kröftum og þátttöku. Það er því samfélagslega óhagkvæmt að fólk sé fátækt.“
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára komi skýrt fram að stjórnvöld telji hins vegar þjóðhagslega hagkvæmt að halda örorkulífeyrisþegum fátækum.
Fyrir marga sé örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins eina framfærslan ævina á enda og því þurfi að tryggja að óskertur lífeyrir dugi til mannsæmandi framfærslu.
„Eins og kerfið er uppbyggt í dag er nánast engin leið fyrir örorkulífeyrisþega að geta notið þeirra aukatekna sem hann mögulega getur aflað sér. Því þá skerðist lífeyririnn. Fólk er hreinlega niður barið,“ sagði Ellen.
Hugmyndir um starfsgetumat, sem ríkisstjórnin, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnulífsins virðast einhuga um að komi öryrkjum til að flykkjast út á vinnumarkaðinn virka ekki í núverandi mynd að mati Ellenar.
„Ef það á að hvetja örorkulífeyrisþega, þá sem geta – til að taka þátt á vinnumarkaði – þá þarf að koma í veg fyrir að atvinnutekjur skerði örorkulífeyri með jafnríkulegum hætti og nú er raunin – þá þurfa ríki og sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins að bjóða upp á störf við hæfi, veita þann sveigjanleika sem þarf ásamt viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði.
Þá þarf síðast en ekki síst að lögfesta Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Þegar þetta hefur verið framkvæmt þá hefur verið búinn til hvati til atvinnuþátttöku – því þarf ekkert starfsgetumat til,“ sagði í ræðu Ellenar.