Formaður VR tekur sæti sem áheyrnarfulltrúi í miðstjórn ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Árni Sæberg

Nýkjörinn formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, hefur ekki viljað taka sæti í miðstjórn ASÍ. Að sögn Ragnars Þórs hefur hann nú skipt um skoðun og ætlar að taka sæti sem áheyrnarfulltrúi á fundi miðstjórnar sem haldinn verður á morgun.

Formaður VR tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum Verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Hann óskaði eftir því sem nýkjörinn formaður í stóru stéttarfélagi að vera einn af ræðumönnum dagsins. Ekki var unnt að breyta skipulagðri dagskrá til þess að koma til móts við óskir Ragnars Þórs. Formaður VR hélt því ræðu á  baráttufundi á Austurvelli á meðan ræðuhöld verkalýðshreyfingarinnar fóru fram á Ingólfstorgi.

Ragnar segir umræðuna um ræðuna á Austurvelli á sama tíma og baráttufundur ASÍ stóð yfir á Ingólfstorgi storm í vatnsglasi.

„1. maí er stór dagur, baráttudagur verkalýðsins. Við eigum að leita allra leiða til þess að taka þátt í baráttunni. Mér bauðst að tala á fundi á Austurvelli og það er ekkert að því að formaður VR tali þar. Ég talaði á fundi Alþýðufylkingarinnar að kvöldi 1. maí. Á sama tíma talaði Helga Ingólfsdóttir, varaformaður VR, á hátíðarfundi Sjálfstæðisflokksins.“

Kemur til móts við gagnrýni

Ragnar telur að ASÍ hefði getað hnikað dagskránni til um fimm mínútur til þess að hleypa nýkjörnum formanni VR að.

„Verkalýðsforystan sem situr við háborð ASÍ getur illa tekið á breytingum. Ræða mín á Austurvelli var ekki stríðsyfirlýsing við ASÍ. Því er þó ekki að leyna að framboð mitt til formanns VR voru mótmæli við hugmyndafræði núverandi forystu ASÍ,“ segir hann.

„Ég hyggst taka sæti í miðstjórn ASÍ sem áheyrnarfulltrúi. Það geri ég til þess að koma til móts við gagnrýni frá félagsmönnum. Þeir telja að ég eigi að taka þátt í störfum miðstjórnar,“ segir Ragnar Þór. Hann býst við að sitja sinn fyrsta miðstjórnafund sem áheyrnarfulltrúi á morgun. 

Kröfugöngur og ræðuhöld 1. maí fóru fram víða um land.
Kröfugöngur og ræðuhöld 1. maí fóru fram víða um land. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Enginn sundrung í VR

Sigurður Sigfússon, stjórnarmaður í VR, telur ekkert athugavert við það þó að formaður VR tali annars staðar en útifundi ASÍ. Það sé heldur ekkert við það að athuga að formaður VR fái ekki að vera ræðumaður á baráttufundi ASÍ á Ingólfstorgi.

„Ég sé þetta ekki sem blaðamál og það er engin sundrung í VR, síst af öllu vegna þessa máls. Formenn VR hafa talað á öðrum útifundum á 1. maí og það eru margir sem vilja fá að tala á baráttufundi ASÍ. Það er eðlilegt að formaður VR fái ekki með stuttum fyrirvara að halda þar ræðu,“ segir Sigurður.

„Það er nefnd sem sér um skipulagingu baráttufundarins 1. maí og hún hefur að öllum líkindum verið búin að ganga frá skipulagi fundarins þegar formaður VR óskaði eftir því að fá að tala þar,“ segir Sigurður og bætir við að stjórn VR komi ekki að þessum málum á neinn hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka