„Þetta var ekki komið á það stig að það hafi átt að kynna það fyrir nefndarmönnum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, í samtali við mbl.is. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lýst óánægju með fyrirhugaðar hugmyndir um sameiningu Tækniskólans og FÁ en ekkert hefur verið fjallað um málið á þingi eða í nefndarstörfum.
Áslaug segir að málið verði kynnt nefndarmönnum á morgun en Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra kemur á fund nefndarinnar síðdegis á morgun og á þriðjudag.
Spurð hvort það sé ekki búið að ákveða sameiningu skólanna nú þegar kveðst Áslaug ekki vita það. „Ég þekki það ekki. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem hafa komið upp og ég hef rætt við ráðherra en ég veit ekki meir.“
Ráðherra sagði við fréttastofu RÚV í morgun að þetta væri ein af hugmyndunum til að bregðast við fækkun framhaldsskólanema. Áslaug tekur undir það. „Þetta er ein af hugmyndunum til að bregðast við mikilli fækkun framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu frá 2017 til 2018.“
Spurð hvort hún sé hlynnt frekari einkavæðingu í skólakerfinu segir Áslaug að það eigi að kalla þetta einkarekstur, ekki einkavæðingu. „Það stendur í stjórnarsáttmálanum að líta til fjölbreytts rekstrarforms í menntakerfinu. Við getum tekið rosa marga skóla sem dæmi: Listaháskólann, Hjallastefnuna, Landakotsskóla, Bifröst, HR, Verslunarskólann, sem eru einkareknir. Ég held að það sé gott fyrir nemendur, auki valfrelsi þeirra og möguleika.“
Áslaug er sammála því að það þurfi auknar fjárveitingar í menntakerfið til að styrkja það. „En á sama tíma þá þarf líka að skoða lengra fram í tímann. Við leysum ekki vandann eingöngu með auknum fjárframlögum, heldur þurfum við að skipuleggja skólakerfið til framtíðar. Sameining getur falið í sér aukna hagkvæmni og getur líka skilað sér í betri gæðum og fjölbreyttara námsframboði fyrir nemendur.“