Funda með skólameistara Tækniskólans

Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Ljósmynd/fa.is

Kennarar og starfsfólk Fjölbrautaskólans við Ármúla munu funda með skólameistara Tækniskólans í hádeginu vegna fyrirhugaðrar sameiningar skólanna.

Unnar Þór Bachmann, trúnaðarmaður kennara í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Hann sagði stöðuna lítið breytta frá því í gær.

Eins og kom fram í gær stendur til að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla og Tækniskólann á næstunni. Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, formaður alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar, sagði í gær að málið yrði kynnt fyrir nefndarmönnum í dag, þegar Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra kemur á fund nefndarinnar.

„Ég held að þetta sé bara upplýsingafundur til starfsmanna,“ sagði Unnar en vildi annars lítið tjá sig um málið að svo stöddu. Kennarar ætla að senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert