Íslendingar munu koma að uppbyggingu eins stærsta jarðhitaverkefnis sögunnar í nýrri risaborg í Kína. Borgin heitir Xiong'an og er áætlað að þar og í nágrannaborginni Peking muni alls búa 130 milljónir manna.
Um er að ræða samstarfsverkefni Arctic Green Energy Corporation, sem er að hluta í eigu Íslendinga, og Sinopec, þriðja stærsta fyrirtækis heims. Þau starfa saman undir merkjum Sinopec Green Energy.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Arctic Green Energy, kínversk stjórnvöld áforma gríðarlega uppbyggingu jarðhitavirkjana í Kína. Búist sé við að markaður fyrir jarðhita í Kína muni fimmfaldast til 2020 og samanlögð fjárfesting nema sem svarar um 4.250 milljörðum króna.