Enginn óskapnaður leyfður á þessu svæði

Seljalandsfoss. Drög að deiliskipulagi gera ráð fyrir að bílaplan verði …
Seljalandsfoss. Drög að deiliskipulagi gera ráð fyrir að bílaplan verði fær og haft sameiginlegt fyrir fossinn Gljúfrabúa og Seljalandsfoss. mbl.is/Ásthildur Guðjónsdóttir

Ekki er búið að samþykkja deili­skipu­lag fyr­ir svæðið um­hverf­is Selja­lands­foss en vinna við það er á loka­metr­un­um og málið er nú statt hjá Skipu­lags­stofn­un. Þetta seg­ir Ísólf­ur Gylfi Pálma­son, sveit­ar­stjóri í Rangárþingi eystra.

RÚV greindi frá því í gær að einn af land­eig­end­um við Selja­lands­foss væri and­víg­ur áform­um um að tvö þúsund fer­metra þjón­ustumiðstöð verði reist við foss­inn. Seg­ir hann miðstöðina, sem deili­skipu­lags­drög­in gera ráð fyr­ir að geti risið mitt á milli foss­ins Gljúfra­búa og Selja­lands­foss, munu skyggja á Selja­lands­foss frá Suður­lands­vegi og Þjórsár­vegi.

Ísólf­ur Gylfi seg­ir búið að svara þeim at­huga­semd­um sem borist hafa vegna deili­skipu­lags­ins, en að vinna við gerð þess hafi staðið yfir í ein þrjú ár. Nú sé málið komið inn á borð Skipu­lags­stofn­un­ar, sem sé að fara yfir hvort rétt hafi verið að mál­um staðið.

Flest­ir já­kvæðir fyr­ir sam­ein­ingu bíla­stæða

„Við erum búin að fá um­sögn Um­hverf­is­stofn­un­ar og ferðamála­sam­taka,“ seg­ir hann og kveður flesta hafa verið já­kvæða fyr­ir því að í deili­skipu­lag­inu sé gert ráð fyr­ir sam­eig­in­legu bíla­stæði fyr­ir Gljúfra­búa og Selja­lands­foss. „Við drög­um þetta allt fjær foss­in­um.“

Ísólf­ur Gylfi seg­ir hins veg­ar ekk­ert enn liggja fyr­ir um það hvers kon­ar þjón­ustumiðstöð verði byggð. „Það verða gerðar gríðarleg­ar kröf­ur um það hvers kon­ar bygg­ing mun rísa þarna í fyll­ingu tím­ans. Fyrst er að ganga frá deili­skipu­lag­inu, sem nú er á loka­metr­un­um.“

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir miklar kröfur verða …
Ísólf­ur Gylfi Pálma­son, sveit­ar­stjóri Rangárþings eystra, seg­ir mikl­ar kröf­ur verða gerðar varðandi hönn­un þjón­ustumiðstöðvar við Selja­lands­foss.

 Hann bend­ir á að af þeim fjór­um býl­um sem til­heyri land­eig­anda­fé­lag­inu við Selja­lands­foss hafi aðeins þetta eina býli gert þessa at­huga­semd.

Spurður hvort bygg­ing á þess­um stað muni skyggja á foss­inn frá Suður­lands­vegi og Þjórsár­vegi seg­ir hann bygg­ing­ar alltaf skera sig frá nátt­úr­unni. „Þær taka alltaf ein­hverja at­hygli frá um­hverf­inu en við mun­um gera gríðarleg­ar kröf­ur þegar að þessu kem­ur.“

Hann nefn­ir að hluti þeirra land­eig­enda sem geri at­huga­semd­irn­ar við bygg­ing­una reki sölu­vagn­inn Selja­veit­ing­ar og geri það með mikl­um mynd­ar­brag. „Þau hafa verið með hug­mynd­ir um óskap­lega fal­lega þjón­ustumiðstöð, sem myndi henta gríðarlega vel þar sem gert er ráð fyr­ir henni í deili­skipu­lagi.“

Ekki sé hins veg­ar enn tíma­bært að ræða út­lit bygg­ing­ar­inn­ar. „Við get­um ekk­ert gert fyrr en búið er að ganga frá deili­skipu­lagi, en það verður aldrei leyfður neinn óskapnaður á þessu svæði.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert