Enginn óskapnaður leyfður á þessu svæði

Seljalandsfoss. Drög að deiliskipulagi gera ráð fyrir að bílaplan verði …
Seljalandsfoss. Drög að deiliskipulagi gera ráð fyrir að bílaplan verði fær og haft sameiginlegt fyrir fossinn Gljúfrabúa og Seljalandsfoss. mbl.is/Ásthildur Guðjónsdóttir

Ekki er búið að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið umhverfis Seljalandsfoss en vinna við það er á lokametrunum og málið er nú statt hjá Skipulagsstofnun. Þetta segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.

RÚV greindi frá því í gær að einn af land­eig­end­um við Selja­lands­foss væri and­víg­ur áform­um um að tvö þúsund fer­metra þjón­ustumiðstöð verði reist við foss­inn. Segir hann miðstöðina, sem deiliskipulagsdrögin gera ráð fyrir að geti risið mitt á milli fossins Gljúfra­búa og Selja­lands­foss, munu skyggja á Seljalandsfoss frá Suðurlandsvegi og Þjórsárvegi.

Ísólfur Gylfi segir búið að svara þeim athugasemdum sem borist hafa vegna deiliskipulagsins, en að vinna við gerð þess hafi staðið yfir í ein þrjú ár. Nú sé málið komið inn á borð Skipulagsstofnunar, sem sé að fara yfir hvort rétt hafi verið að málum staðið.

Flestir jákvæðir fyrir sameiningu bílastæða

„Við erum búin að fá umsögn Umhverfisstofnunar og ferðamálasamtaka,“ segir hann og kveður flesta hafa verið jákvæða fyrir því að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir sameiginlegu bílastæði fyrir Gljúfrabúa og Seljalandsfoss. „Við drögum þetta allt fjær fossinum.“

Ísólfur Gylfi segir hins vegar ekkert enn liggja fyrir um það hvers konar þjónustumiðstöð verði byggð. „Það verða gerðar gríðarlegar kröfur um það hvers konar bygging mun rísa þarna í fyllingu tímans. Fyrst er að ganga frá deiliskipulaginu, sem nú er á lokametrunum.“

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir miklar kröfur verða …
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir miklar kröfur verða gerðar varðandi hönnun þjónustumiðstöðvar við Seljalandsfoss.

 Hann bendir á að af þeim fjórum býlum sem tilheyri landeigandafélaginu við Seljalandsfoss hafi aðeins þetta eina býli gert þessa athugasemd.

Spurður hvort bygging á þessum stað muni skyggja á fossinn frá Suðurlandsvegi og Þjórsárvegi segir hann byggingar alltaf skera sig frá náttúrunni. „Þær taka alltaf einhverja athygli frá umhverfinu en við munum gera gríðarlegar kröfur þegar að þessu kemur.“

Hann nefnir að hluti þeirra landeigenda sem geri athugasemdirnar við bygginguna reki söluvagninn Seljaveitingar og geri það með miklum myndarbrag. „Þau hafa verið með hugmyndir um óskaplega fallega þjónustumiðstöð, sem myndi henta gríðarlega vel þar sem gert er ráð fyrir henni í deiliskipulagi.“

Ekki sé hins vegar enn tímabært að ræða útlit byggingarinnar. „Við getum ekkert gert fyrr en búið er að ganga frá deiliskipulagi, en það verður aldrei leyfður neinn óskapnaður á þessu svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka