Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að fundurinn í morgun með menntamálaráðherra hafi verið mjög greinargóður. Þar var rædd möguleg sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla.
„Ég held að Kristján Þór hafi farið mjög vel yfir það sem liggur að baki því að byrjað sé að skoða hvort þessi sameining muni gagnast nemendum og öllum sem koma að skólanum,“ sagði Áslaug Arna að loknum fundinum.
„Það var mjög gott að fá þessar upplýsingar frá ráðherra og nú bíðum við eftir því þegar faglega matið liggur fyrir hver ákvörðunin verður.“
Hún sagði gott að verið sé að huga að því að efla starfsnám og hafa fjölbreytt nám fyrir nemendur í framhaldsskólum.
„Ég er jákvæð fyrir því að það verði sameining ef það muni gagnast nemendum og stuðla að því að við komum til móts við það að hafa hér sem fjölbreyttast nám og geta haldið því uppi þrátt fyrir fækkun nemenda.“