Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er ekki ánægð með svörin sem hún fékk á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis með Kristjáni Þór Júlíussyni, menntamálaráðherra. Þar var rædd möguleg sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans í Ármúla.
„Ég skil ekki ennþá af hverju ráðherrann talar um að helsti vandi framhaldsskólanna séu fámennir framhaldsskólar og að stytting námstíma til stúdentsprófs hafi fækkað nemendum,“ sagði Oddný að loknum fundinum í morgun.
„Viðbrögðin séu þau að taka stærsta framhaldsskóla landsins, sem er Tækniskólinn, og einn af þeim stærri, sem er Fjölbrautaskólinn í Ármúla, og sameina þá og hann telur að það sé til mikilla hagsbóta að láta rekstraraðila Tækniskólans, sem eru Samtök atvinnulífsins, Samorka og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og svo framvegis reka framhaldsskóla þar sem helsta sérsviðið eru námsbrautir í heilbrigðisþjónustu,“ sagði hún.
„Ég skil ekki hvernig honum dettur í hug að þetta muni bjarga vanda framhaldskólanna og að engin önnur áform séu uppi um breytingar til að takast á við þann vanda sem við blasir.“