Brynhildur S. Björnsdóttir er nýskipaður formaður stjórnar Sjúkratrygginga Íslands. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra skipaði hana. Fyrsti fundur nýs formanns með stjórn stofnunarinnar verður haldinn í dag. Hún tekur við stjórnarformennsku af Hákoni Stefánssyni lögfræðingi, en hann tekur sæti sem aðalmaður í stjórninni, að því er fram kemur á vef velferðarráðuneytisins.
Brynhildur var stjórnarformaður Bjartrar framtíðar 2015-2016 og hefur átt sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð.
Brynhildur er framkvæmdastjóri hjá GG Verk ehf. Hún er með menntun á sviði stjórnunar og stefnumótunar. Hún sótti nám í Harvard Business School árið 2016, lauk MSc. gráðu frá Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótun árið 2009 og BA frá Háskólanum á Bifröst í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði árið 2007.