Hjáleið við Geirsgötu verður lokuð 20. maí að sögn Hrólfs Jónssonar, sviðsstjóra framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.
„Sú staða er komin upp að við komumst ekki hjá því að loka fyrir akstur um Geirsgötu tímabundið, til að uppbyggingaraðilar á svæðinu geti athafnað sig. Það er alls ekki óskastaða í þessu flókna verkefni,“ segir Hrólfur sem jafnframt bendir á að verið sé að skoða tengingu inn á Sæbraut í gegnum Tryggvagötu og Kalkofnsveg.
Olíuflutningar úr Örfirisey og þungaflutningar til og frá Reykjavíkurhöfn verða annaðhvort að fara um miðbæ Reykjavíkur eða alla leið út á Hringbraut. Í umfjöllun um aðgerðir þessar í Morgunblaðinu í dag segir framkvæmdastjóri Olíudreifingar, Hörður Gunnarsson, hvorugan kostinn góðan.